Innlent

Talsverðar annir hjá björgunarsveitum í gærkvöldi

Birgir Olgeirsson skrifar
Stúlka handleggsbrotnaði á Látraströnd, hlaupari skilaði sér ekki og maður slasaðist í Saurskógi.
Stúlka handleggsbrotnaði á Látraströnd, hlaupari skilaði sér ekki og maður slasaðist í Saurskógi. Vísir
Talsverðar annir voru hjá björgunarsveitum í gærkvöldi. Björgunarsveitir á Norðurlandi voru kallaðar út um kl. 16.30 í gær vegna stúlku sem handleggsbrotnaði í Fossdal á Látraströnd. Stúlkan hafði fallið í brattri hlíð og var orðin köld og hrakin. Verkefnið var afar krefjandi þar sem bera þurfti stúlkuna um langan veg í fjallendi.

Engir vegir eru á Látrastönd þannig að ferja þurfti björgunarmenn með bátum frá Akureyri, Dalvík, Grenivík, Ólafsfirði og Ólafsfirði. Talsverðan mannskap þurfti til burðarins og lauk aðgerðum uppúr miðnætti þegar stúlkan var komin til aðhlynningar á Ólafsfirði.

Rétt fyrir kl. 17.00 í gær voru björgunarsveitir í Húnavatnssýslum kallaðar út til leitar að konu sem hafði villst í Vatnsnesfjalli í skipulögðu víðavangshlaupi. Konan skilaði sér ekki innan tilskilins tíma og hófu björgunarsveitir leit þegar ljóst var að hlauparinn var í vandræðum. Veðuraðstæður voru frekar slæmar mjög lítið skyggni var á svæðinu, rigning og frekar svalt. Konan kom fram stuttu eftir að leit hófst.

Um 20.00 voru björgunarsveitir á Snæfellsnesi kallaðar út vegna manns sem var slasaður á fæti í Sauraskógi við Stykkishólm. Verkefnið gekk fljótt og vel fyrir sig enda um stuttan veg að fara.

Björgunarsveitir í Reykjavík voru kallaðar út kl. 21.15 til leitar að þar sem tilkynnt var fallhlífastökkvara í sjónum um 300 metra norður af Gróttu. Bátar frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg, bátar og þyrla frá Landhelgisgæslunni auk annarra báta sem voru í nágrenninu tóku þátt í leitinni. Eftir nokkra leit fundust stórar blöðrur á floti og fékkst staðfest að 3-4 stórar gasblöðrur hafi sloppið út veislu í nágrenninu fyrr um kvöldið. Þar sem búið var að leita svæðið mjög vel var talið öruggt að fullnægjandi skýring væri komin og leit því afturkölluð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×