Erlent

Talsmaður Trump segir hann trúa að Obama hafi fæðst í Bandaríkjunum

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/EPA
Talsmaður Donald Trump segir forsetaframbjóðandann nú trúa þvi að Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hafi fæðst í Bandaríkjunum. Trump sjálfur hefur hins vegar margsinnis neitað að segja það sjálfur.

Trump hefur um árabil verið einn helsti forsvarsmaður „birther“ hreyfingarinnar svokölluðu sem haldið hefur því fram að Obama hafi ekki fæðst á Hawaii og því eigi hann ekki að vera með ríkisborgararétt og geti því ekki verið forseti.

Framboð Trump sakar nú Hillary Clinton um að hafa komið þeirri umræðu af stað í forvali Demókrataflokksins árið 2008. Fjölmiðlar ytra segja það hins vegar vera kolrangt.

Jason Miller, talsmaður Trump, sagði forsetaframbjóðandann hafa gert bæði Bandaríkjunum og Obama greiða með að loka málinu. Hann sagði málinu hafa verið lokað þegar Obama var neyddur til að birta fæðingarvottorð sitt opinberlega.

Á miðvikudaginn tók Washington Post viðtal við Trump þar sem hann neitaði að viðurkenna að Obama væri fæddur í Bandaríkjunum.

Þá var hann spurður hvort að það væri rétt hjá Kellyanne Conway, framkvæmdastjóra framboðs Trumps, þegar hún sagði nýverið að yfirmaður hennar trúði því að Obama hefði fæðst á Hawaii, sagði Trump:

„Þetta er í lagi. Hún má segja það sem hún vill. Ég vil einblína á störf. Ég vil einblína á aðra hluti.“

Þurfi að segja það sjálfur

Í nýjustu tilkynningunni er því haldið fram að Trump hafi trúað því að Obama væri fæddur í Bandaríkjunum frá því hann sá fæðingarvottorð forsetans árið 2011. Síðan þá hefur Trump hins vegar ítrekað haldið öðru fram. Meðal annars hefur hann haldið því fram opinberlega að vottorðið sé falsað.

Þá er, eins og áður segir, því haldið fram að Clinton hafi upphaflega haldið því fram að Obama væri í raun ekki með ríkisborgararétt árið 2008. Framboð Hillary Clinton hafi fyrst borið upp málið til að reyna að koma höggi á andstæðing hennar í forvalinu árið Barack Obama. Sem er ekki rétt.

Talsmaður Clinton sagði að Trump þurfi að segja sjálfur hverju hann trúi og það þurfi hann að gera fyrir framan myndavél. Hann eigi að viðurkenna að hann hafi haft rangt fyrir sér og að það hafi verið rangt af honum að reyna að draga úr lögmæti fyrsta svarta forseta Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×