Viðskipti innlent

Talsmaður FÍB segir olíufélögin of treg til að elta eldsneytislækkanir

Ingvar Haraldsson skrifar
Eldsneytisverð er lengi að lækka.
Eldsneytisverð er lengi að lækka.
Íslensk olíufélög eru treg til að lækka eldsneytisverð og bíða yfirleitt þar til eitthvert þeirra tekur af skarið og lækkar olíuverð þó fullt tilefni geti hafa verið til verðlækkana um nokkra hríð. Þetta segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda.

„Aðhaldið virðist ekki alveg koma sem skyldi í innbyrðis baráttu milli félaganna. Þetta er auðvitað fákeppnismarkaður svo aðhaldið þarf stundum að koma utan frá,“ segir Runólfur og bendir á að fyrir hverja krónu sem álagning hækki fáist 350 milljónir króna úr vasa neytenda.

Í gær hafði verð á bensíni haldist óbreytt frá 9. júlí en á sama tímabili hafði verð á Brent-hráolíu lækkað um 8,5 prósent. Þá hafði verð á dísilolíu haldist óbreytt frá 20. júlí. Eftir að Fréttablaðið fór að spyrjast fyrir um hvort tilefni væri til verðlækkana hjá Skeljungi rétt fyrir hádegi í gær lækkaði olíufélagið verð á bensíni um fjórar krónur og dísilolíu um sex krónur.

Runólfur Ólafsson
Verð á bensíni hafði verið óbreytt hjá Skeljungi frá 6. júlí og verð á dísilolíu frá 16. júlí. Hin olíufélögin fylgdu í kjölfarið og lækkuðu eldsneytisverð til jafns við Skeljung.

„Ég var akkúrat að vinna í lækkun þegar þú hringdir,“ sagði Heiðar Örn Gunnlaugsson, innkaupastjóri eldsneytis hjá Skeljungi, síðdegis í gær en hann hafði lítið viljað gefa upp um mögulegar verðlækkanir fyrr um daginn.

„Það var byrjað að skoða þetta í gær, svo var ég bara að reikna þetta út í morgun,“ segir Heiðar spurður út í hvort verðlækkunin hafi haft langan aðdraganda.

Þau svör fengust frá hinum olíufélögunum að ástæða lækkunarinnar væri lækkun eldsneytisverðs hjá Skeljungi.

Runólfur segir að svigrúm hafi verið til verðlækkunar um talsverða hríð enda hafði verð á dísilolíu í Danmörku lækkað um ríflega 9 krónur í júlí og verð á bensíni um annað eins.

Heiðar segir að Skeljungur vilji helst ekki breyta verði of oft. „Sveiflurnar geta verið miklar milli daga svo maður reynir aðeins að sjá, hvort sem það er hækkun eða lækkun,“ segir hann.

Runólfur segir að á Íslandi ætti markaðsumhverfið að vera líkt því sem gerist í Danmörku en þar fylgi eldsneytisverð breytingum á heimsmarkaðsverði mun betur en hér á landi.

„Í sjálfu sér ættu að gilda alveg sömu lögmál hér af því að íslensku olíufélögin eru að kaupa stærstan hluta af sínu eldsneyti frá erlendum olíufélögum sem eiga birgðirnar hér heima og er því keypt á gengi hvers dags,“ segir Runólfur.



Leiðrétting 9:10: Þau leiðu mistök urðu að að verðlækkanir olíufélaganna  í júlí voru sagðar hafa átt sér stað í júní í fyrri útgáfu fréttarinnar og í Fréttablaðinu í dag. Hlutaðeigandi eru beðnir afsökunar á því.



Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×