Erlent

Talið ólíklegt að Grikkir nái samkomulagi fyrir páska

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Grikkir segja í áætlun sinni að þeir hafi engin áform um að hætta í evrusamstarfinu.
Grikkir segja í áætlun sinni að þeir hafi engin áform um að hætta í evrusamstarfinu. vísir/ap
Fundi Grikkja við lánadrottna þeirra lauk í dag, án árangurs. Talið er ólíklegt að samningar náist fyrir páska.

Grikkir sendu til lánadrottna sinna í gær uppfærða áætlun til umbóta í þeirri von um að fá frekari lán og geta þannig forðast greiðslufall. Áætlunin er 26 blaðsíðna löng og segja Grikkir hana umtalsvert ítarlegri en fyrri tillögur þeirra. Henni var skilað inn síðdegis, eftir að fundi þeirra við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, Seðlabanka Evrópu og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lauk.

Fulltrúi Evrópusambandsins sagði í samtali við Financial Times að Grikkir yrðu að vinna enn ítarlegri áætlun, vilji þeir ná samkomulagi, og taldi ólíklegt að það næðist fyrir páska.

Í áætluninni kemur fram að grísk stjórnvöld þurfi á 19 milljörðum evra að halda á árinu 2015. Þau þurfi þó fyrst að fjármagna 1,5 milljarða evra greiðslu á lífeyri og launum opinberra starfsmanna. Það muni stjórnvöld meðal annars gera með því að selja eignir í eigu ríkisins.

Framtíð Grikkja innan evrusamstarfsins er í mikilli hættu, fái þeir ekki 7,2 milljarða evru neyðarlán frá Evrópusambandinu. Grikkir segja í áætlun sinni að þeir hafi engin áform um að hætta í evrusamstarfinu.

Gríska ríkið er þó að renna út á tíma og hafa Grikkir verið útilokaðir frá alþjóðlegum lánamörkuðum. Grikkir þurfa að standa í skilum á 430 milljóna evra afborgun af láni fyrir 9. apríl og þurfa auk þess að greiða af fleiri lánum í þessum mánuði. Fáist ekki aukið lánsfé mun laust fé gríska ríkisins klárast á næstu dögum og blasir þá gjaldþrot við.

Til stendur að setjast aftur við samningaborðið í næstu viku.


Tengdar fréttir

Umbótaáætlun Grikkja að vænta á morgun

Forsætisráðherra Grikklands mun á morgun funda með kanslara Þýskalands og skila inn nýrri áætlun til umbóta í þeirri von um að gríska ríkið fái frekari lán




Fleiri fréttir

Sjá meira


×