Erlent

Talið er að þrettán hafi látist í árásinni í Istanbúl

Birgir Olgeirsson skrifar
Talið er að þrettán hafi látist í tveimur sprengingum við Vodafone-leikvanginn í Istanbúl í Tyrklandi í kvöld.

Fréttastofa breska ríkisútvarpsins BBC hefur eftir innanríkisráðherra Tyrkja, Suleyman Soylu, að talið sé að um bílsprengju hafi verið að ræða sem var sprengd við hlið rútu sem flutti óeirðarlögreglumenn að leikvanginum.

Sprengingin átti sér stað tveimur klukkutímum eftir leik knattspyrnuliðanna Besiktas og Bursaspor, sem eru tvö af sterkustu liðum Tyrklands.

Enginn hefur lýst yfir ábyrgð enn sem komið er en kúrdískir skæruliðar og hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við íslamskt ríki, ISIS, hafa borið ábyrgð á fjölda sprengjuárása í Tyrklandi á árinu sem nú er að líða.

Innanríkisráðherra Tyrkja bendir á að sú staðreynd að sprengjuárásinni í kvöld var beint gegn lögreglumönnum færi grun á kúrdíska skæruliða, sem hafa aðallega ráðist gegn lögreglu og hermönnum.

Greint er frá því á BBC að áhorfendur leiksins hafi verið farnir af svæðinu þegar árásin átti sér stað.

Hér fyrir neðan má sjá myndband af því þegar sprengingin varð:

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×