Erlent

Talið að klórgasi hafi verið varpað á Aleppo

Samúel Karl Ólason skrifar
Minnst 70 manns, þar af „flestir almennir borgarar“ hafa átt í erfiðleikum með andardrátt og þurft á meðhöndlun að halda.
Minnst 70 manns, þar af „flestir almennir borgarar“ hafa átt í erfiðleikum með andardrátt og þurft á meðhöndlun að halda. Vísir/AFP
Stjórnarher Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, er sakaður um að hafa varpað klórgasi á almenna borgara í borginni Aleppo. Tunnusprengjum var í dag varpað á borgina úr þyrlum og áttu tugir manna erfitt með andardrátt í kjölfar árásanna.

Aðgerðasamtökin Syrian Observatory for Human Rights segja minnst 70 manns, þar af „flestir almennir borgarar“ hafa átt í erfiðleikum með andardrátt og þurft á meðhöndlun að halda. Uppreisnarmenn í borginni segja að um klórgas hafi verið að ræða, samkvæmt AFP fréttaveitunni.

Báðar hliðar hafa lengið sakað hvorn annan um beitingu efnavopna. Rannsakendur Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna birtu í síðasta mánuði skýrslu þar sem stjórnarherinn er sagður hafa beitt efnavopnum minnst tvisvar. Þá er stjórnarherinn sagður hafa beitt klórgasi.

Enginn er sagður hafa látið lífið í árásunum.

Bardagar um Aleppo hafa staðið yfir í marga mánuði en bæði stjórnarherinn og uppreisnarmenn hafa stjórnað mismunandi hlutum borgarinnar. Þar að auki er hluti borgarinnar í höndum Kúrda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×