Fótbolti

Talibanar hótuðu krúttlega plastpokakrakkanum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Afganski drengurinn Murtaza Ahmadi sem varð heimsfrægur fyrir að klæðast Messi-treyju úr plastpoka hefur nú flúið Afganistan.

Murtaza og fjölskylda hans flúði til Pakistan eftir stanslausar hótanir frá Talibönum.

„Líf okkar var orðið ömurlegt út af öllum þessum hótunum,“ sagði faðir fimm ára drengsins, Mohammed Arif Ahmadi.

Faðirinn segir að fjölskyldan hafi ekki viljað yfirgefa Afganistan en hótanirnar hafi orðið það alvarlegar að hann sá ekki annan kost í stöðunni. Hann segir einnig að fjölskyldan hafi óttast að drengnum yrði rænt eftir að hann varð frægur.

Sjá einnig: Messi mun hitta krakkann í plastpokabúningnum

„Talibanarnir bæði hringdu og sendu mér bréf. Spurðu af hverju drengurinn væri ekki að læra um Kóraninn í islömskum skóla. Af hverju ég væri frekar að hvetja hann til þess að leika sér í fótbolta,“ sagði Ahmadi og bætti við að hótanirnir í garð fjölskyldunnar hefðu alltaf aukist.

„Ég seldi allar okkar eigur svo við gætum flutt. Við fórum fyrst til Islamabad en það var of dýrt að vera þar. Við fórum því í minni bæ.“

Lengi stóð til að Messi myndi hitta drenginn en það gekk aldrei upp. Hann fékk þó áritaða treyju frá argentínska goðinu og var eðlilega í skýjunum með það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×