Erlent

Talíbanar felldu þrjátíu

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Sprengjuárás var gerð á lögreglumenn utan við Kabúl í gær.
Sprengjuárás var gerð á lögreglumenn utan við Kabúl í gær.
Að minnsta kosti þrjátíu létu lífið þegar talíbanar gerðu sprengjuárás á afganska lögreglumenn rétt utan við höfuðborgina Kabúl. Þá særðust einnig fimmtíu.

Tvær sprengjur skullu á rútulest lögreglumanna sem var að ferja nýútskrifaða lögreglumen frá útskriftarathöfn í vesturhluta borgarinnar. Musa Khan, hverfis­stjóri Paghman-hverfis í Kabúl, sagði í samtali við BBC að allir hinna látnu utan tveggja væru nýútskrifaðir úr lögregluskóla.

Talíbanar lýstu yfir ábyrgð á árásinni stuttu eftir að hún var gerð. Í yfirlýsingu þeirra segir að fyrri sprengjumaðurinn hafi gert áhlaup á eina rútu og þegar neyðar­aðstoð barst hafi annar ekið bíl hlöðnum sprengiefni á rúturnar.

Ashraf Ghani, forseti Afganistans, fordæmdi árásina í gær. „Árásir talíbana eru glæpir gegn mannkyninu,“ sagði Ghani. „Á meðan múslimar eru uppteknir við bænahald þennan heilaga ramadan­mánuð halda talíbanar áfram að fremja hrottalega glæpi, drepa saklaust fólk og vekja ótta,“ sagði hann enn fremur.

Árásin er áttunda stóra árás talíbana á árinu og sú þriðja í þessum mánuði. Fjórtan nepalskir öryggisverðir voru myrtir í sjálfsmorðsárás á rútu í höfuðborginni þann nítjánda þessa mánaðar og afganskur þingmaður auk þriggja aðstoðarmanna var myrtur í sprengjuárás þann fimmta.



Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. júlí 2016




Fleiri fréttir

Sjá meira


×