Fótbolti

Talan 299 bjargaði lífi hans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningskona Chapecoense.
Stuðningskona Chapecoense. Vísir/Getty
Fótboltaheimurinn og öll brasilíska þjóðin stendur þétt við bak brasilíska félagins Chapecoense sem missti nítján leikmenn og allt þjálfarateymið í flugslysi í Kólumbíu.

Það voru níu leikmenn liðsins sem fóru ekki í ferðina til Kólumbíu og það varð þeim til lífs. Einn af þeim er markvörðurinn Jose Nivaldo.

Þessi 42 ára gamli markvörður átti að öllu eðlilegu að vera með í flugvélinni og spila þennan fyrri úrslitaleik í Copa Sudamericana á móti Atletico Nacional.  Félagið hafði aldrei áður komist svona langt en þessi keppni er ígildi Evrópudeildarinnar.

Ástæðan fyrir því að Jose Nivaldo fór ekki með var talan 299. Hann ætlaði að leggja skóna á hilluna eftir þetta sögulega tímabil og 300. leikurinn hans átti að vera á heimavelli fyrir framan stuðningsmenn félagsins. 

Jose Nivaldo var gjörsamlega niðurbrotinn þegar hann hitti blaðamenn og sagði frá þessu. 

„Auðvitað hefði ég viljað vera með liðsfélögum mínum en þetta kom bara til af einni ástæðu. Ég vildi spila 300. og síðasta leikinn minn á heimavelli. Ég og þjálfarinn vorum sammála um að ég yrði eftir heima,“ sagði Jose Nivaldo. 

Hann tilkynnti jafnframt að hann væri búinn að leggja skóna á hilluna. Nivaldo mun því aldrei spila 300. leikinn leikinn sem í raun bjargaði lífi hans.

Brasilísk félög hafa boðist til að lána Chapecoense leikmenn og þá hafa félög utan Brasilíu boðið fram peningaaðstoð. Chapecoense er lítið félag og það þarf mikið til ætli það að lifa þetta hörmulega slys.


Tengdar fréttir

Guð bjargaði syni mínum

Faðir markvarðar brasilíska liðsins Chapecoense segir það vera kraftaverk að sonur hans hafi lifað flugslysið í Kólumbíu af.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×