Erlent

Tala látinna á Ítalíu hækkar stöðugt

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Þrjátíu og átta hið minnsta eru látnir og á annað hundrað er saknað eftir öflugan jarðskjálfta sem skók Ítalíu í nótt. Eyðileggingin er mikil og neyðarástand ríkir í sumum bæjum.

Skjálftinn var af stærðinni 6,2 og átti upptök sín um sjötíu og sex kílómetra suðaustur af borginni Perugia á um tíu kílómetra dýpi rétt fyrir klukkan fjögur að staðartíma, eða um klukkan tvö að íslenskum tíma. Skjálftinn er sagður hafa staðið yfir í um tuttugu sekúndur. Yfir áttatíu eftirskjálftar hafa gengið yfir Ítalíu, sá stærsti af stærðinni 5,4.

Héruðin Umbria, Lazio og Le Marche urðu hvað verst úti í skjálftanum, en ástandið er einna verst í bænum Amatrice í Lazio héraði. Haft er eftir bæjarstjóranum, Sergio Pirozzi, að borgin sé meira og minna í rúst eftir skjálftann. Nokkuð hefur verið um aurskriður og þá hafa vegir eyðilagst og að minnsta kosti ein brú er að hruni komin. Því hefur björgunarstarf gengið erfiðlega þar sem ekki hefur verið hægt að komast að hinum slösuðu. Pirozzi hefur biðlað til stjórnvalda að senda frekari aðstoð í borgina hið fyrsta.

Aðrir bæir sem urðu illa úti í jarðskjálftanum eru Accumoli, Arquata del Tronto og Pescara del Tronto, en almannavarnir á Ítalíu hafa átt erfitt með að greina frá tölu látinna, þar sem hún hækkar stöðugt.  Yfirmaður almannavarna, Immacolata Postiglione, sagðist í samtali við þarlenda fjölmiðla óttast að tala látinna eigi eftir að hækka mjög í ljósi þess hve margir séu enn fastir undir húsarústum og hve margra er saknað.

Frans páfi ávarpaði gesti á Péturstorginu í morgun, þar sem hann sagði þessar fréttir hræðilegar. Skelfilegt hafi verið að heyra bæjarstjórann tilkynna að Amatrice sé varla til lengur.

Skjálftinn fannst víða á Ítalíu og skulfu byggingar meðal annars í Róm, sem er í um 150 kílómetra fjarlægð frá upptökum skjálftans. Hann fannst allt frá Bologna í norðri til Napólí í suðri.

Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu hafa ekki borist fregnir af Íslendingum á svæðinu, en Andri Lúthersson, deildarstjóri upplýsinga hjá ráðuneytinu, hvetur þá sem ekki hafa haft uppi á aðstandendum, og eru áhyggjufullir, að hafa samband við borgaraþjónustu ráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×