Innlent

Takast á við riðutilfelli aftur

Sveinn Arnarsson skrifar
Riðutilfelli undanfarinna tíu ára
Riðutilfelli undanfarinna tíu ára
„Það er bara verið að kippa undan manni fótunum og við getum ekkert gert í þessu,“ segir Ragnheiður G. Kolbeins, bóndi á Brautarholti.

Greint var frá því á föstudag að riðuveiki hefði komið upp á bænum Brautarholti í Skagafirði. Þetta er í annað skipti sem ábúendur á jörðinni lenda í þessum áföllum, síðast árið 1987.

Á síðustu tíu árum hafa þrettán staðfest riðutilfelli komið upp á landinu. Flest hafa þau komið upp í Skagafirði en einnig á Suður­landi og í Húnaþingi vestra. Riðutilfellið nú á Brautarholti er fjórða tilfellið á síðasta ári sem hefur komið upp á Norðurlandi vestra en fyrir þann tíma hafði ekki greinst riða á svæðinu síðan 2010.

Ragnheiður hafði grun um að ein fjögurra vetra ær hjá sér væri með riðu og hafði samband við héraðsdýralækni. Tilfellið var staðfest og því þarf að drepa allt það fé sem er á bænum; rétt tæplega þrjú hundruð ær auk lamba úr sauðburði vorsins.

„Einnig þurfum við að taka allt timbur úr útihúsum og brenna það auk þess að jarðvegsskipta á stóru svæði utan við fjárhúsin. Svo þarf að bíða í tvö ár,“ segir Ragnheiður. „Þetta er áfall, og í annað skiptið sem við þurfum að ganga í gegnum þessar hörmungar. Bætur sem við fáum munu aldrei ná upp í allan þann kostnað sem af hlýst. Það er bara verið að rífa frá okkur lifibrauðið.“

Nokkur svæði á landinu eru riðulaus og hefur riða aldrei greinst á þeim svæðum. Til að mynda á Ströndum, á Snæfellsnesi, í Öræfum og Þistilfirði. Varnar­girðingar og bann við flutningi sauðfjár og heyja hafa komið í veg fyrir að riða berist á þau svæði.

Ragnheiður segir skorta vitneskju um sjúkdóminn. „Það kom upp riða á mörgum bæjum hér um miðjan níunda áratuginn og svo virðist sem þetta sé að blossa upp núna. Á sama tíma virðist skorta á þekkinguna, hvað það er sem nákvæmlega veldur þessu,“ segir Ragnheiður. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×