Innlent

Taka undir hugmyndir Ögmundar um flugvöll í þjóðaratkvæði

Bæði fjármálaráðherra og utanríkisráðherra taka undir hugmyndir innanríkisráðherra um að setja framtíð Reykjavíkurflugvallar í þjóðaratkvæði.

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, sagði í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun að hann teldi að Reykjavíkurflugvöll ætti ekki að færa úr Vatnsmýri. Hann sagði einnig að deildar meiningar væru í þjóðfélaginu öllu um flugvöllinn og að hann teldi að ganga ætti til þjóðaratkvæðargreiðslu um málið.

„Það hvernig samgöngum er háttað til og frá Reykjavík er stórt mál sem varðar mjög ríka hagsmuni allra landsmanna, en um leið er þetta að sjálfsögðu líka skipulagsmál hér í Reykjavík," segir Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra.

Ertu þeirrar skoðunar að málefni flugvallarins eigi því að fara í þjóðaratkvæði? „Ég ætla ekkert að útiloka það. Það getur vel verið að til þess komi ef menn geta lagt fram skýra valkosti. Hvernig það spilar saman við afstöðu stjórnvalda á mismunandi stigum í þessu máli, það þarf auðvitað að skýra það í leiðinni," segir Steingrímur.

„Þetta er ein af mörgum ágætum hugmyndum innanríkisráðherrans. Við erum báðir lýðræðissinnar og ég hef yfirleitt verið á bandi þeirra sem vilja auka rétt fólks til þess að ákveða stór mál í þjóðaratkvæðagreiðslum. Þannig að mér finnst þetta hugmynd sem er meira en einnar messu virði," segir Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra.

Til stendur að reisa nýja færanlega flugstöðvabyggingu við Reykjavíkurflugvöll. En hvenær sér innanríkisráðherra fyrir sér að hún rísi? „Hvað sem líður deilum um framtíð flugvallarins þá verður hann hér á næstu árum. Og það verður að bæta aðstöðu við innanlandsflugið. Um þetta eru allir sammála og ég vonast til þess að við getum fljótlega gengið frá samkomulagi þar að lútandi," segir Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra og ráðherra samgöngumála. thorbjorn@stod2.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×