Handbolti

Taka stærra hlutverki fagnandi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eins og flestum ætti að vera kunnugt um verður Aron Pálmarsson ekki með íslenska handboltalandsliðinu á HM í Frakklandi sem hefst í kvöld.

Aðrir leikmenn þurfa því að stíga fram og sýna sig og sanna á stóra sviðinu. Þeirra á meðal eru Gunnar Steinn Jónsson og Ólafur Guðmundsson, sem leika báðir með Kristianstad í Svíþjóð.

„Þetta er búið að vera leiðinlegt óvissuástand en nú er þetta komið á hreint. Hann verður ekki með og þá er tími fyrir okkur að taka stærra hlutverk. Ég fæ væntanlega að spreyta mig í skyttustöðunni og á miðjunni og tek því bara fagnandi,“ sagði Gunnar Steinn í samtali við Arnar Björnsson í Metz í dag.

Gunnar kveðst vera spenntur fyrir stærra hlutverki í íslenska liðinu.

„Ég er mjög ánægður með að fá hlutverk og ætla að gera mitt besta,“ sagði Gunnar Steinn.

Ólafur kveðst nokkuð bjartsýnn fyrir leikinn gegn Spáni annað kvöld.

„Við ætlum að reyna að ná í úrslit. Það er spennandi leikur á morgun og þar ætlum við að reyna að ná í tvö stig. Það verður krefjandi,“ sagði Ólafur sem segir það áfall að missa Aron út.

„Það er auðvitað skellur. Hann er frábær leikmaður og ég held að hvaða lið í heiminum myndi sakna hans. En að sama skapi fórum við í gegnum undirbúninginn án hans og skellurinn er kannski aðeins minni fyrir vikið,“ sagði Ólafur. Hann tekur stærra hlutverki fagnandi.

„Vonandi fæ ég stórt hlutverk á þessu móti og ætla að reyna að nýta þau tækifæri og hjálpa liðinu að ná í úrslit og ná árangri,“ sagði Ólafur.

Fréttina má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir

Aron verður ekki með á HM

Það varð ljóst nú rétt fyrir hádegi að besti leikmaður íslenska handboltalandsliðsins, Aron Pálmarsson, verður ekki með á HM í Frakklandi.

Þetta er ógeðslega leiðinlegt

Aron Pálmarsson kom með íslenska landsliðinu til Metz. Það er ekki enn ljóst hvort hann spilar með landsliðinu á HM. Hann fékk sprautu fyrir um viku sem hann vonast til að hjálpi sér að geta spilað á mótinu.

Bjarki: Það er ekkert að mér

Hornamaðurinn Bjarki Már Elísson tók af allan vafa um það hvort hann myndi spila gegn Spánverjum á morgun er hann ræddi við blaðamann Vísis nú seinni partinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×