Innlent

Tæpur helmingur vill Hönnu Birnu

Tæpur helmingur landsmanna vill sjá Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í formannsstóli Sjálfstæðisflokksins samkvæmt könnun Capacent Gallups. Núverandi formaður nýtur margfalt minni stuðnings en flokksystir hans, bæði meðal almennra kjósenda og Sjálfstæðismanna.

Samkvæmt könnuninni treysta 40,2% landsmanna Hönnu Birnu Kristjánsdóttur best til að leiða Sjálfstæðisflokkinn, þrátt fyrir að hún hafi ekki gefið kost á sér til formanns flokksins. Bjarni Benediktsson, núverandi formaður sem sækist eftir endurkjöri á landsfundi í nóvember, nýtur 11,1% stuðnings og á eftir honum með 7,6% kemur Kristján Þór Júlíusson. 5,5% vilja sjá Ólöfu Nordal í formannssætinu og 1,9% Guðlaug Þór Þórðarson. Athygli vekur að rúm 5% kjósa að sjá aðra einstaklinga gegna formennskunni og tæp 30% treysta engum innan flokksins til þess.

Þegar litið er til kjósenda Sjálfstæðisflokksins sést að yfir helmingur treystir Hönnu Birnu best fyrir formannssætinu, eða 51,4%. Það er meiri stuðningur en allir aðrir fulltrúar flokksins, sem könnunin nær yfir, fá til samans, þar á meðal formaðurinn sem nýtur einungis stuðnings tæplega fjórðungs kjósenda sinna, eða 24,3%. Þessi staða sem nú er komin upp innan Sjálfstæðisflokksins þykir því fremur óvanaleg.

Úrtak könnunarinnar náði til 1320 einstaklinga og var svarhlutfallið rúmlega 60%, en tæplega 80% svarenda tóku afstöðu. Það var Capacent Gallup sem sá um framkvæmdina að ósk stuðningsmanna Hönnu Birnu, en könnunin fór fram á netinu dagana 6. til 14. júlí og hefur hún verið kynnt nokkrum af forystumönnum flokksins.

Það er athyglisvert að könnunin var framkvæmd fyrir tveimur mánuðum, en þeir sem hana gerðu ákváðu að leka henni ekki til fjölmiðla fyrr en nú. Hvað hefur breyst á þessum tíma?

Sjálfstæðisflokkurinn hefur sótt í sig veðrið að undanförnu en samkvæmt nýrri könnun Stöðvar 2 og Fréttablaðsins myndi rúmlega helmingur landsmanna kjósa flokkinn ef gengið yrði til kosninga nú.

Í ljósi góðs stuðnings almennra kjósenda við Hönnu Birnu hljóta sjálfstæðismenn nú að velta fyrir sér hvort að hún geti hugsanlega styrkt stöðu flokksins enn frekar með formannsframboði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×