Innlent

Tæplega 500 börn fengu kæru á síðasta ári

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Flest barna sem eru kærð fyrir brot eru tekin fyrir þjófnað. Fréttablaðið/Vilhelm
Flest barna sem eru kærð fyrir brot eru tekin fyrir þjófnað. Fréttablaðið/Vilhelm
491 barn átján ára og yngri var kært fyrir brot á hegningarlögum á síðasta ári. 307 strákar og 187 stelpur. Langflest ungmennin eru gripin fyrir þjófnað, þá innbrot og ofbeldi og kynferðisbrot.

Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur segir að íhuga ætti alvarlega að hækka sakhæfisaldur í 18 ár enda sýni rannsóknir fram á að ákærumeðferð barns ýti jafnvel undir ný brot.

“Sáttamiðlun milli gerenda og þolenda gæti í þessu samhengi skipað hærri sess í málefnum ungmenna. Að ungmennum á glapstigum sé gerð grein fyrir afleiðingum brota sinna á þolendur og samfélagið allt um leið og þau fá tækifæri til að bæta fyrir brotið og sjá raunhæfa möguleika á að tengjast því á uppbyggilegan hátt í framtíðinni,“ segir Helgi.

Helgi Gunnlaugsson
Í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins um afskipti lögreglu af börnum kemur fram að kærð ungmenni eru fjórðungur kærðra í hegningarlagabrotum árið 2015. Þá er átt við börn og ungmenni að tuttugu ára aldri.

Kærð ungmenni voru alls 644 á síðasta ári. 65 prósent þeirra eru strákar og stúlkur um 35 prósent. Stúlkur á þessum aldri eru um þriðjungur kvenna sem kærðar voru fyrir hegningarlagabrot árið 2015, en strákar um fjórðungur kærðra karla.

Hlutfall kærðra ungmenna af heildarfjölda kærðra hvert ár hefur þó verið að lækka, að undanskildum stúlkum, en greiningardeild lögreglu segir meiri sveiflur einkenna fjölda stúlkna en drengja. Þegar mest lét árið 2009 voru ungmenni 20 ára og yngri um 37 prósent kærðra í hegningarlagabrotum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×