Viðskipti innlent

Tæpir 20 milljarðar í hagnað hjá Arion

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Höskuldur Ólafsson bankastjóri segir að það sé fyrst og fremst regluleg starfsemi sem skili góðri afkomu á öðrum fjórðungi.
Höskuldur Ólafsson bankastjóri segir að það sé fyrst og fremst regluleg starfsemi sem skili góðri afkomu á öðrum fjórðungi. vísir/stefán
Hagnaður Arion banka á fyrri helmingi ársins nam 19,3 milljörðum króna samanborið við 17,4 milljarða króna á sama tímabili 2014. Markast afkoma tímabilsins mjög af óreglulegum liðum líkt og í fyrra. Skipta þar mestu einskiptisatburðir eins og skráning og sala bankans á hlutum í fasteignafélaginu Reitum og alþjóðlega drykkjaframleiðandanum Refresco Gerber. Arðsemi eigin fjár var 22,8% samanborið við 23,4% á sama tímabili árið 2014.

Höskuldur Ólafsson, bankastjóri bankans, segir þó að á öðrum ársfjórðungi sé það fyrst og fremst regluleg starfsemi bankans sem skili góðri arðsemi. „Þannig heldur starfsemi bankans áfram að styrkjast og jukust þóknanatekjur, sem eru fyrst og fremst frá fyrirtækjum, um 13% á milli ára. Við sjáum einnig áhrif traustara efnahagsástands og aukinna umsvifa í efnahagslífinu í auknum lánveitingaum til fyrirtækja, einkum til fasteignaframkvæmda, flutninga- og ferðaþjónustu og sjávarútvegs, sem er mjög jákvætt,“ segir Höskuldur í tilkynningu.

Hagnaður af reglulegri starfsemi á tímabilinu nam 8,7 milljörðum króna samanborið við 6,0 milljarða á sama tímabili 2014. Arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi nam 10,8% á fyrri helmingi ársins samanborið við 8,1% á sama tímabili 2014. Heildareignir námu 974,8 milljörðum króna samanborið við 933,7 milljarða króna í árslok 2014.

Eiginfjárhlutfall bankans í lok tímabilsins var 23,2% en var 26,3% í árslok 2014. Í tilkynningu segir að lækkunin sé einkum tilkomin vegna arðgreiðslu að fjárhæð 12,8 milljarðar króna og fyrirframgreiðslu á víkjandi lánum frá ríkinu að fjárhæð 20 milljarðar króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×