Fótbolti

Tæp fimmtíu ár frá síðustu þrennu í úrslitaleik HM

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lloyd og félagar fagna í Vancouver.
Lloyd og félagar fagna í Vancouver. Vísir/AFP
Sparkspekingar um allan heim trúa ekki sínum eigin augum. Þegar fimm mínútur voru liðnar af úrslitaleik Bandaríkjanna og Japan á HM í Kanada voru þær bandarísku komnar í 2-0. Eftir korter var staðan orðin 4-0.

Fyrirliði bandaríska liðsins, Carli Lloyd, er búin að skora þrennu en fjórða markið skoraði hún með skoti frá miðju. Lloyd er komin með sex mörk á mótinu eins og Celia Sasic hjá Þýskalandi. Það ætti ekki að koma neinum á óvart ef Lloyd bætir við marki og tryggi sér markakóngstitilinn.

Lloyd er fyrsti leikmaðurinn í sögu HM kvenna til að skora þrennu í úrslitaleik HM kvenna en fyrst var keppt í Kína árið 1991. Ekki hefur verið skoruð þrenna í úrslitaleik HM síðan Geoff Hurst skoraði þrennu fyrir England gegn Vestur-Þýskalandi á Wembley 1966 eða fyrir 49 árum. Enn er reyndar deilt um hvort boltinn hafi farið yfir línuna í einu marka Hurst.

Japan hefur ekki áður lent undir á mótinu, hafði aðeins fengið á sig þrjú mörk í öllum leikjunum til þessa og er leikur liðsins í molum þegar þetta er skrifað. Bandaríkin hafa aðeins fengið á sig eitt mark á öllu mótinu og nákvæmlega engar líkur á því að Japanir nái að snúa við blaðinu.

Bandaríkin höfðu fyrir úrslitaleikinn í dag skorað samtals fjögur mörk í þremur úrslitaleikjum sem liðið hefur spilað. Lið hafði ekki skorað fleiri en tvö mörk í úrslitaleik fyrr en í Vancouver í dag.

Uppfært klukkan 23:33

Yuki Ogimi minnkaði muninn fyrir Japani eftir um hálftíma leik. Staðan er 4-1.

Uppfært klukkan 00:36

Staðan er 5-2 þegar tíu mínútur lifa leiks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×