Erlent

Tæknirisar taka höndum saman í baráttu gegn hryðjuverkum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Fyrirtækin hafa lengi verið gagnrýnd fyrir að veita hryðjuverkamönnum vettvang til að koma áróðri sínum á framfæri.
Fyrirtækin hafa lengi verið gagnrýnd fyrir að veita hryðjuverkamönnum vettvang til að koma áróðri sínum á framfæri. Vísir/afp
Tæknirisarnir Facebook, YouTube, Twitter og Microsoft tilkynntu í dag um stofnun alþjóðlegs netumræðusvæðis gegn hryðjuverkum. Með stofnun umræðusvæðisins svara fyrirtækin gagnrýni þess efnis að þeim hafi mistekist að koma í veg fyrir hryðjuverkaáróður á síðum sínum. The Guardian greinir frá.

Í tilkynningu frá fyrirtækjunum segir að með samstarfinu, sem ól af sér alþjóðlega umræðusvæðið (e. Global Internet Forum to Counter Terrorism), muni þau einblína á tæknilegar lausnir og rannsóknir. Þá verður baráttunni einnig gefinn farvegur í samstarfi við ríkisstjórnir og aðra borgaralega hópa. Markmiðið er að gera síðurnar fjandsamlegt umhverfi fyrir hryðjuverkamenn.

Fyrirtækin, og þá sérstaklega Facebook, hafa lengi verið gagnrýnd fyrir að veita hryðjuverkamönnum vettvang til að koma áróðri sínum á framfæri. Vitað er til þess að hryðjuverkamenn afli sér liðsmanna með hjálp tækninnar sem fyrirtækin bjóða upp á og noti auk þess vettvanginn til deilingar á ofbeldisfullum skilaboðum, þar á meðal til streymis á aftökum í beinni útsendingu.

Leita ýmissa leiða í baráttunni

Með nýja umræðusvæðinu ætla fyrirtækin að leita leiða til „greiningar á efni“ sem gæti talist tengt hryðjuverkum og „flokkunaraðferðum“ á því efni. Þá verður unnið með nefndum á vegum Sameinuðu þjóðanna, sem sérhæfa sig í aðgerðum gegn hryðjuverkum, til þess að „staðfesta hvernig best sé að berjast gegn öfgastefnu og hatri á internetinu, um leið og tjáningarfrelsi og friðhelgi einkalífsins er virt.“

Komið hefur fram að Facebook hefur bæði fólk í vinnu, sem þarf að þekkja andlit og nöfn yfir 600 hryðjuverkamanna, til að sporna við ágangi þeirra og beitir einnig hugbúnaði sem framkvæmir fyrirbyggjandi skoðun á efni sem sett er inn á síðuna.

Yfirvöld um allan heim hafa lengi beitt tæknifyrirtækin þrýstingi vegna dreifingar á áróðri öfgamanna. Í desember síðastliðnum funduðu embættismenn frá Hvíta húsinu með Apple, Facebook, Twitter og Micosoft til að ræða aðgerðir í málaflokknum. Þau þrjú síðarnefndu, auk YouTube, standa nú að stofnun hins alþjóðlega umræðusvæðis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×