Erlent

Tæknimenn sprengdu eldflaugina vegna stórfelldrar bilunar

Bandaríkin og AP / Óli Kristján Ármannsson skrifa
Hér má sjá brot úr myndbandsupptöku Bandarísku geimvísindastofnunarinnar (NASA) af því þegar ómönnuð geimflaug Orbital Sciences Corp. sprakk í loft upp yfir skotstað á Wallops Island í Virginíu í Bandaríkjunum.
Hér má sjá brot úr myndbandsupptöku Bandarísku geimvísindastofnunarinnar (NASA) af því þegar ómönnuð geimflaug Orbital Sciences Corp. sprakk í loft upp yfir skotstað á Wallops Island í Virginíu í Bandaríkjunum. Fréttablaðið/AP
Ómönnuð geimflaug með vistir og rannsóknargögn, sem flytja átti í Alþjóðlegu geimstöðina sem er á sporbaug um jörðu, sprakk í loft upp rétt eftir að henni var skotið á loft á þriðjudagskvöld.

Flaugin var í eigu einkafyrirtækisins Orbital Sciences Corp. sem starfar sem undirverktaki fyrir Bandarísku geimvísindastofnunina, NASA.

Enginn meiddist í sprengingunni eða þegar logandi braki úr flauginni rigndi yfir skotpallinn og hafsvæði við hann.

Guardian greinir frá því að tæknimenn á jörðu niðri hafi kveikt á sjálfseyðingarbúnaði flaugarinnar sex sekúndum eftir að henni var skotið á loft vegna stórfelldrar bilunar í tækjabúnaði.

Fyrirtækið hefur lofað gagngerri rannsókn á orsökum slyssins og hófst leit í braki flaugarinnar þegar í gærmorgun.

Um leið og gagnrýni hefur aukist á samninga NASA við sjálfstæða verktaka til að „brúa bil“ í geimferðaáætlun Bandaríkjanna þá hefur fyrirtækið varið ákvörðun sína um að nota rússneskan eldflaugabúnað sem kominn er til ára sinna og hefur verið sniðinn að þörfum Antares-geimflauganna.

Haft er eftir Frank Culbertson, aðstoðarforstjóra Orbital Sciences, að of snemmt sé að fullyrða um orsakir slyssins.

Horft á Fólk fylgist úr fjarlægð með flugtaki og sprengingu flaugar Orbital Sciences Corp. Fréttablaðið/AP
Culbertson segir Orbital Sciences tryggt gegn slysum en tjón í sprengingunni, fyrir utan viðgerðarkostnað á skotpalli og nágrenni, sé nálægt 200 milljónum Bandaríkjadala, eða sem svarar 24,2 milljörðum króna.

Um borð í flauginni voru um 2,3 tonn af rannsóknar- og tækjabúnaði frá NASA, auk forpakkaðra matvæla handa geimförum um borð í Alþjóðlegu geimstöðinni.

Fara á aðra ferð með vistir í geimstöðina, sem er á sporbaug í 420 kílómetra hæð yfir jörðu, að sögn Mike Suffredini, geimstöðvarstjóra hjá NASA.

Hann segir geimfarana sex, tvo Bandaríkjamenn, þrjá Rússa og einn Þjóðverja, sem um borð eru hafa nægar birgðir fram á vor.

Tilviljun er sögð hafa ráðið því að laust eftir að Antares-geimflaugin átti að fara, þá var skotið á loft frá Kasakstan geimflaug Rússnesku geimvísindastofnunarinnar.

Hún kom á áfangastað í Alþjóðlegu geimstöðinni sex klukkustundum síðar með um þrjú tonn af matvælum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×