Skoðun

Tæknilegt vandamál eða eigum við að gera betur sjálf?

Íris Þórarinsdóttir skrifar

Fyrir nokkrum dögum þurfti að stöðva dælustöðvar fráveitunnar við Faxaskjól og Skeljanes af því að dælurnar voru fullar af rusli. Blautklútum, dömubindum, bleium, tíðatöppum, fatnaði og jafnvel gæludýrum er sturtað niður um klósett borgarbúa. „Skítur í Skerjafirði“ rataði í fréttirnar.

Fráveitukerfið er ekki hugsað til þess að taka á móti svona sendingum. Við höfum sorphirðu til þess. Vandamálin sem það skapar að nota klósettið eins og ruslafötu eru óþörf og snúa ekki bara að auknu sliti í dælum og kostnaði við að endurnýja þær örar. Í hvert skipti sem þarf að taka upp dælur í hreinsistöðvum fráveitunnar minnka afköstin þannig að stöðvarnar geta farið á yfirfall, sem kallað er. Þá rennur skólpið óhreinsað frá þeim í sjó fram við stöðvarnar sjálfar í stað þess að enda í hreinsistöð og fara þaðan hreinsað út í sjó. Af þessu hlýst auðvitað mengun strandsjávar og jafnvel strandarinnar sjálfrar, sem við þurfum ekki að valda ef við göngum betur um fráveitukerfin okkar.

Lagnakerfi geta líka stíflast af rusli og höfum við heyrt af leikskólum þar sem heimæðar hafa stíflast af blautþurrkum og íbúðarhúsum þar sem dömubindi hafa stíflað lagnir þannig að rennsli frá húsum stoppast og flæðir jafnvel upp á yfirborð. Fita getur einnig valdið tregðu í lögnum.

Í dælu- og hreinsistöðvum fráveitunnar fellur til talsvert af sorpi sem íbúar hafa sturtað niður í klósettin eða látið renna ofan í vaska og niðurföll. Þessu sorpi þarf að farga með talsverðum tilkostnaði. Það er ólíkt hagkvæmara að nota sorphirðuna beint í stað þess að nota skólprör bæjarins eins og sorprennu.

Sameiginlega og hvert í sínu lagi erum við þessi misserin að stíga mörg framfaraskref í umhverfismálum. Við hjólum meira, notum strætó meira og flokkum sorpið okkar betur. Við getum gert talsvert betur í umgengni okkar við klósettin heima hjá okkur. Klósettið er ekki ruslafata.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×