Sport

Systurnar mætast í úrslitunum í Ástralíu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Systurnar Venus og Serena Williams mætast í úrslitum á opna ástralska meistaramótsins í tennis á laugardag en undanúrslitin í einliðaleik kvenna fóru fram í nótt.

Þetta er í níunda sinn alls sem systurnar mætast í úrslitum á risamóti og í fyrsta sinn síðan 2009. Serena hefur unnið alls 22 titla á risamótum og Venus átta.

Venus, sem er í þrettánda sæti heimslistans, vann Coco Vandeweghe í undanúrslitunum, 6-7, 6-2 og 6-3. Þar með komst hún í úrslitaleik á risamóti í fyrsta sinn síðan 2009.

Hún er einu ári eldri en Serena sem vann afar þægilegan sigur á Mirjana Lucic-Baroni frá Króatíu, 6-2 og 6-1.

Steffi Graf vann 22 risamót á hennar ferli og myndi því Serena bæta árangur hennar með því að vinna systur sína um helgina.

Hin ástralska Margaret Court á flesta risamótstitla eða 24 talsins en það var áður en atvinnufólk fékk að taka þátt í mótunum.

„Ég er virkilega stolt af Venus,“ sagði Serena í nótt. „Hún er mér mikil innblástur. Ég er virkilega ánægður fyrir hennar hönd og það er draumur fyrir okkur báðar að mætast í úrslitum. Hún er minn erfiðasti andstæðingur. Það hefur enginn unnið mig oftar en Venus.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×