Erlent

Systur dæmdar til nauðgunar

Samúel Karl Ólason skrifar
Indland hefur verið gagnrýnt harðlega undanfarin ár vegna ítrekaðra brota gegn konum þar í landi.
Indland hefur verið gagnrýnt harðlega undanfarin ár vegna ítrekaðra brota gegn konum þar í landi. Vísar/AFP
Sjálfskipað þorpsþing í Baghpat-héraði á Norður-Indlandi hefur fyrirskipað að hinni 23 ára gölu Meenakshi Kumari og fimmtána ára systir hennar verði nauðgað. Auk þess að vera nauðgað segir þingið að sverta eigi andlit þeirra og láta þær ganga naktar í gegnum þorpið.

Þingið ákvað að þeim yrði nauðgað af hópi karlmanna vegna „glæps“ bróður þeirra, Ravi. Hann stakk af með giftri konu sem tilheyrði hærri stétt en hann og fjölskylda hans.

Íslandsdeild Amnesty International hefur sett af stað netákall sem skrifa má undir hér. Í tilkynningu frá Amnesty segir að ekkert geti réttlætt þessa andstyggilegu refsingu.

Systurnar og fjölskyldumeðlimir þeirra tilheyra Dalit stéttinni í Indlandi, en meðlimir hennar eru einnig kallaðir „hinir ósnertanlegu“. Stéttin er sú lægst setta í Indlandi. Konan tilheyrir aftur á móti Jat stéttinni.

Fjölskyldan hefur flúið til Delhi og hefur beðið Hæstarétt Indlands um vernd.

Á vef Independent segir að Ravi og stúlkan hafi viljað vera saman, en hún hafi verið neydd til að giftast öðrum manni sem tilheyrði sömu stétt. Faðir systranna hefur lagt fram kvartanir vegna fjölskyldu konunnar sem Ravi stakk af með og lögreglunnar. Heimili þeirra var lagt í rúst og lögreglan er sögð hafa fylgst með.

Hæstiréttur Indlands hefur áður gert lítið úr þorpsþingum eins og því sem um ræðir hér. Þau eru kölluð khap panchyat og er úrskurðum þeirra fylgt eftir víða um Indland. Samkvæmt núverandi lögum í Indlandi eru nauðganir innan hjónabands ekki refsiverðar og kynlíf á milli aðila af sama kyni ber sömu viðurlög og nauðgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×