Innlent

Systkini aðskilin þar sem þau komast ekki í sama leikskóla

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Nokkuð algengt er að systkini fari í sitt hvorn leikskólann í Reykjavík eftir að systkinaforgangur var lagður af fyrir nokkrum árum. Móðir sem stendur frammi fyrir því í annað sinn að vera með börn sín í sitt hvorum leikskólanum segir það raksa bæði heimilislífi og aðlögun barnanna.

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg voru í október á síðasta ári 26 börn á yngstu deild leikskóla sem ekki komust inn á sama leikskóla og eldra systkini. Systkinaforgangur var áður við lýði í Reykjavík en var afnuminn árið 2008 þar reglan var talin brjóta gegn jafnræðisreglunni.

Herborg er fjögurra barna móðir. Fyrir nokkrum árum voru elstu börnin hennar tvö á sitt hvorum leikskólanum sökum þess hve seint á árinu það yngra var fætt. Nú stendur hún frammi fyrir sama vanda þegar yngsta barnið fer í leikskóla í haust. „ Það er mjög sérstakt að koma á leikskóla með barn og vita það frá byrjun að barnið verður ekki þarna áfram. Ég er náttúrulega búin að fara í gengum þetta áður og veit og þekki muninn hvernig er að vera með börn á sama leikskóla eða sitt hvorum leikskólanum. Mér finnst í raun og veru ekkert mæla með því að systkini séu á tveimur mismunandi leikskólum. Ég sé ekki afhverju þetta vandamál er til, “ segir Herborg Harpa Ingvarsdóttir.

Foreldrar í sömu stöðu og Herborg, með börn á nokkrum leikskólum í Reykjavík, hafa undanfarið talað sig saman og skorað á Reykjavíkurborg að endurskoða reglur um innritun barna á leikskóla. „ Þau fá færri frídaga með okkur foreldrunum og færri stundir vegna þess að það eru ólíkir skipulagsdagar leikskólanna og ólíkir viðburðir. Þannig að við þurfum að taka okkur frí og það eru færri þá frídagar saman. Þannig að þannig bitnar þetta á þeim. Þetta lengir þeirra vistunartíma. Við viljum meina það að þetta sé fyrst og fremst hagmunamál barnanna,“ segir Fanney Karlsdóttir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×