Innlent

Sýslumönnum fækkað úr 24 í níu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hanna Birna Kristjánsdóttir, innaríkisráðherra.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, innaríkisráðherra. VISIR/STEFAN
Ný lög um umdæmaskipan sýslumanna taka gildi um næstu áramót.

Embættin verða 9 í stað 24 áður og hef­ur inn­an­rík­is­ráðherra nú skipað nýja sýslu­menn í embætt­in í kjöl­far niður­stöðu sér­stakr­ar val­nefnd­ar.  Ný embætti sýslumanna munu taka til starfa um næstu áramót í samræmi við ný lög sem Alþingi samþykkti síðastliðið vor um breytingar á umdæmum sýslumanna og lögreglustjóra og aðskilnað embættanna.

Samkvæmt hinum nýju lögum verður sýslumannsembættum fækkað úr 24 í níu. Lokið verður skipan í embætti í nýjum umdæmum lögreglustjóra á næstu dögum.

Skipan í embætti sýslumanna verður sem hér segir:

  • Sýslumaður á Suðurlandi: Anna Birna Þráinsdóttir.
  • Sýslumaður í Vestmannaeyjum: Lára Huld Guðjónsdóttir.
  • Sýslumaður á Austurlandi: Lárus Bjarnason.
  • Sýslumaður á Norðurlandi eystra: Svavar Pálsson.
  • Sýslumaður á Norðurlandi vestra: Bjarni G. Stefánsson.
  • Sýslumaður á Vestfjörðum: Jónas Guðmundsson.
  • Sýslumaður á Vesturlandi: Ólafur K. Ólafsson.
  • Sýslumaður á höfuðborgarsvæðinu: Þórólfur Halldórsson.
  • Sýslumaður á Suðurnesjum: Ásdís Ármannsdóttir.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, segir í tilkynningu frá ráðuneytinu: 

„Það er afar ánægjulegt að svo öflugur hópur einstaklinga taki að sér þessi mikilvægu embætti sýslumanna í landinu. Sýslumannsembættin eru gamalgrónar og traustar stjórnsýslu- og þjónustustofnanir sem gegna mikilvægu hlutverki. Með sameiningu og fækkun embætta verða til stærri, öflugri og hagkvæmari rekstrareiningar sem eru betur í stakk búnar til að takast á við ný verkefni og efla þjónustu við almenning í landinu.“

Nýjum sýslumönnum verður nú falið að undirbúa innra skipulag hinna nýju embætta, þjónustu þeirra og starfsemi að öðru leyti en ný umdæmaskipan tekur gildi um næstu áramót. Ráðherra ákveður, að höfðu samráði við viðkomandi sýslumann, sveitarstjórnir, landshlutasamtök sveitarfélaga og fleiri hvar aðalskrifstofur sýslumanna skulu vera og hvar aðrar sýsluskrifstofur verða starfræktar og hvaða þjónustu þar skuli veita




Fleiri fréttir

Sjá meira


×