Erlent

Sýrlenski herinn sækir frá Palmyra

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Her ríkisstjórnar Bashars al-Assad, forseta Sýrlands, auk flughers Rússa, sækir nú að vígamönnum hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki frá borginni Palmyra sem Sýrlandsher hertók á sunnudag. Áður höfðu sveitir Íslamska ríkisins farið með völdin í borginni mánuðum saman og brotið þar niður fornminjar og hof.

Fréttastofa AFP greinir frá því að herinn beini nú sjónum sínum að bæjunum al-Qaryatain suðvestur af Palmyra, og Sukhnah norðaustan við borgina. Íslamska ríkið hefur hreiðrað um sig í bæjunum tveimur. Þá hefur herinn gert Palmyra að bækistöð sinni og opnað á ný herflugvöll borgarinnar.

Óttast var að hryðjuverkamennirnir hefðu stórskemmt forn hof í miklum mæli en sérfræðingar sem skoðað hafa borgina síðan Íslamska ríkið var hrakið frá henni segja ástandið ekki eins slæmt og óttast var. Maamoun Abdulkarim, yfirmaður fornminjastofnunar Sýrlands, sagði fréttastofu BBC að um áttatíu prósent borgarinnar væru enn óskemmd. Þó væri endurbyggingar þörf. „Almennt erum við mjög ánægð þar sem við héldum að útkoman væri stórslys,“ sagði Abdulkarim.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 29. mars.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×