Erlent

Sýrlenski herinn orðinn veikburða en forsetinn lofar áframhaldandi baráttu

Birgir Olgeirsson skrifar
Forseti Sýrlands Bashar al-Assad.
Forseti Sýrlands Bashar al-Assad. Vísir/EPA
Sýrlenski herinn hefur neyðst til að gefa eftir svæði til að ná yfir önnur í baráttunni gegn uppreisnarmönnum sem hefur staðið yfir í fimm ár. Þetta sagði forseti Sýrlands, Bashar al-Assad, í ræðu í dag þar sem hann sagði herinn einnig skorta hermenn.

Í gær hafði hann lýst yfir að allir þeir sem hefðu komið sér undan herskyldu eða strokið úr hernum yrðu náðaðir.

Átökin á Sýrlandi eru talin hafa kostað 230 þúsund manns lífið og eru milljónir sagðir hafa flúið þau. Stór svæði þar í landi eru ekki lengur undir stjórn yfirvalda.

Herinn í Sýrlandi státaði eitt af 300 þúsund hermönnum en hefur minnkað um helming vegna mannfalls, liðhlaupa og þeirra sem koma sér undan herskyldu.

Forsetinn sagði herinn ekki búa yfir nægum styrk til að verja landið, sér í lagi á meðan uppreisnarhópar fá aukinn utanaðkomandi stuðning.

Bashar Assad sagðist viss um að herinn gæti varið helstu svæðin, og átti þar við Damascus, Hom og Hama en meiri óvissa væri vegna borganna Aleppo og Deraa.

Hann lofaði áframhaldandi baráttu og útilokað allar samningaviðræður. „Orðið ósigur er ekki til í orðabók sýrlenska hersins. Við munum veita mótspyrnu og við munum sigra.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×