Menning

Sýningin Iceland frumsýnd í Los Angeles

Guðrún Jóna Stefánsdóttir skrifar
Sýningin Iceland verður frumsýnt á föstudaginn næsta í The Ford Theaters í Los Angeles.
Sýningin Iceland verður frumsýnt á föstudaginn næsta í The Ford Theaters í Los Angeles. Mynd/Ásdís
„Sýningin Iceland er tilraunakennd nútímaópera eftir O-Lan Jones. Ég myndi helst lýsa tónlistinni sem blöndu af indí, óperu og söngleikjatónlist,“ segir Ásdís Þula Þorláksdóttir, nýútskrifuð leikkona frá New York Film Academy í Los Angeles, spurð út í sýninguna Iceland sem frumsýnd verður í The Ford Theaters í Los Angeles á föstudag.

Fjöldi fólks kemur að sýningunni og hefur undirbúningsferlið tekið nokkur ár. Sýningin fjallar um Völu, unga stúlku sem ólst upp með æskuástinni Munda í litlu þorpi fyrir norðan. Eftir langan aðskilnað rekast þau hvort á annað á flugvelli þar sem Vala er á leiðinni norður. Flugvélin hennar lendir í stormi og Vala stekkur út í fallhlíf en fellur niður í „miðnætti sálarinnar“ þar sem hún þarf að takast á við persónulegar hindranir, hugsanir og ótta.

„Álfum og huldufólki bregður fyrir sem vísa henni svo veginn í gegnum þessar ógöngur,“ segir Ásdís. Hún hefur tekið þátt í undirbúningi sýningarinnar frá upphafi en hún kynntist O-Lan Jones, höfundi sýningarinnar, hér á landi fyrir nokkrum árum.

„Það vildi svo til að fyrir næstum þremur árum var O-Lan Jones stödd hér á Íslandi í rannsóknarvinnu fyrir sýninguna og leigði herbergi hjá móður minni. Þegar hún fór svo aftur til Los Angeles hafði ég samband við hana og fékk að koma í prufu og komst inn. Þetta hefur verið mjög hægt ferli, við höfum unnið mikið með spuna og líkamlega tjáningu til þess að finna tengsl huldufólksins sín á milli og skapa heiminn sem það býr í,“ segir Ásdís og bætir við að höfundur sýningarinnar, O-Lan Jones, sé einn helsti frumkvöðullinn í frumsömdum og tilraunakenndum söngleikjum sem hafa vakið miklu lukku í Los Angeles.

Undanfarin ár hefur Ísland hlotið töluverða athygli í Bandaríkjunum, bæði vegna fjölda ferðamanna sem hafa heimsótt landið og vegna þess hversu margir Íslendingar eru að gera það gott í listheiminum vestanhafs.





Leikkonan Ásdís Þula Þorláksdóttir útskrifaðist nýlega frá New York Film Academy í Los Angeles,
„Þegar ég fyrst flutti út fyrir sex árum og sagði fólki frá því að ég væri frá Íslandi, svaraði fólk yfirleitt: „Já, er ekki Björk frá Íslandi?“ eða „Ég heyrði að Ísland væri grænt og Grænland væri jökull.“ Seinni línan var yfirleitt sögð með miklu stolti eins og fólk væri að finna upp hjólið. Núna hins vegar virðist hver einasta manneskja hafa sögu að segja um vin sinn sem fór til Íslands, eða um að hafa komið til Íslands eða ætlar sér að fara þangað,“ segir Ásdís létt í bragði.

En hvernig er að vera eini Íslendingurinn í sýningunni? „Það er frekar sérstakt að þurfa að útskýra hin og þessi orð eða rúnir sem við erum að skoða, fólk virðist heldur ekki þreytast á sögum af því hvernig fólk bjó á Fróninu fríða hér í gamla daga, í svona miklum tengslum við náttúruna og hvernig þjóðsögurnar áttu svona stóran þátt í sjálfsmynd landans,“ segir hún.

Nóg fleira er fram undan hjá Ásdísi, en ásamt því að vera á fullu í lokaundirbúningi fyrir Iceland er hún að skrifa ljóðabók og vinna í stuttmynd, ásamt því að skrifa handrit.

„Það er margt í gangi, og margt skemmtilegt sem mann langar til þess að gera. Ég er á höttunum eftir góðum umboðsmanni ásamt því að fara í endalausar prufur. Draumurinn er auðvitað að geta verið að leika bæði í Los Angeles og á Íslandi,“ segir hún og bætir við að nú sé verið að skoða að koma með sýninguna Iceland til landsins og yrði auðvitað frábært að fá að taka þátt í því.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×