Menning

Sýning sem snýst um ólíkar hliðar nautnar

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Gifs-strúktúr eftir Eygló Harðar.
Gifs-strúktúr eftir Eygló Harðar.
„Nautn á sér jákvæðar og gleðilegar hliðar en líka aðrar dekkri sem tengjast til dæmis ofneyslu og græðgi,“ segir Hlynur Hallsson, safnstjóri Listasafnsins á Akureyri, um sýninguna Nautn sem opnuð verður hjá honum á morgun klukkan 15.

Sex listamenn sýna þar ný verk, þau Anna Hallin, Birgir Sigurðsson, Eygló Harðardóttir, Guðný Kristmannsdóttir, Helgi Hjaltalín Eyjólfsson og Jóhann Ludwig Torfason. Hlynur segir þá hafa kastað á milli sín hugmyndum og útkoman sé fjölbreytt.

 

„Eygló er að hugsa um glímuna við efnið og hina frumstæðu nautn sem oft fylgir listsköpun. Guðný er með beina tilvísun í kynlíf og Anna Hallin er á sömu slóðum í sínum skúlptúrum. Helgi Hjaltalín er að velta fyrir sér markmiðum með myndaseríu af ÍSIS-liðum.

Jói Torfa er á gráu svæði, ég reikna með að einhverjum bregði þegar þeir sjá framsetningu hans og Birgir er bæði með verk á sýningunni og dansgjörning við opnun hennar,“ lýsir Hlynur og bætir við: Svo verða þau öll með listamannaspjall klukkan 15 á sunnudaginn.“



Sýningin Nautn er samstarfsverkefni Listasafns Árnesinga og Listasafnsins á Akureyri og safnstjórarnir, þau Inga Jónsdóttir og Hlynur eru sýningar­stjórar. Hér er því bæði um samstarf milli listamanna og safna að ræða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×