Innlent

Syngja um ást og frið

Linda Blöndal skrifar
Friður, jafnrétti, ást og öryggi eru skilaboð barna við upphaf Barnamenningarhátíðar sem var sett í dag í fimmta sinn.

Fjórðu bekkingar boðsgestir

Yfirfullt var í morgun í stærsta sal Hörpu við setningu Barnamenningarhátíðar. Sextán hundruð sæta Eldborgarsalurinn fylltist af ungum boðsgestum úr fjórða bekk grunnskóla borgarinnar þegar hátíðin árlega var sett. Það var dansatriði Íslenska dansflokksins og Klettaskóla sem hitaði upp og  síðan setti Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hátíðina við mikinn fögnuð barnanna. 

Fjörutíu þúsund þátttakendur

Sungið var hátíðarlagið í ár sem nefnist „Það sem skiptir mestu máli.“ Skilaboðin þar eru friður, jafnrétti, ást og öryggi. Það eru þau Salka Sól og Gnúsi úr AmabAdamAsem  sömdu og fluttu og krakkarnir tóku vel undir. Orðin voru tekin úr orðasafni sem krakkarnir sömdu á dögunum.

Hátíðin fer nú fram í fimmta skipti og er einn stærsti viðburður ársins. Um 120 viðburðir eru í boði fyrir börn og unglinga í öllum hverfum borgarinnar og gert er ráð fyrir að um 40 þúsund manns taki þátt í hátíðinni sem stendur yfir næstu sex daga, frá þriðjudegi til sunnudags. Frítt er inn á alla viðburði.

Nokkrir fjórðubekkingar sem Stöð 2 ræddi við í kvöld sögðu menningarhátíðina nauðsynlega þar sem hún hvetti fólk til að vera gott við hvert annað og einnig að börn hefðu réttindi eins og aðrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×