Körfubolti

Sylvía meðal efstu leikmanna í nokkrum tölfræðiþáttum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sylvía í leik með Haukum í vetur.
Sylvía í leik með Haukum í vetur. vísir/anton
Stelpurnar í U-18 ára landsliðinu í körfubolta mæta Grikklandi í undanúrslitum B-deildar Evrópumótsins í kvöld.

Ísland vann góðan 17 stiga sigur, 85-68, á Hvíta-Rússlandi í gær og hefur því unnið fjóra af fimm leikjum sínum á EM. Eina tapið kom gegn heimaliðinu, Bosníu.

Íslensku stelpurnar hafa spilað einstaklega vel á EM, þó sennilega engin betur en Haukastelpan Sylvía Rún Hálfdanardóttir sem er á meðal efstu leikmanna í nokkrum tölfræðiþáttum á mótinu.

Sylvía hefur skorað 17,0 stig að meðaltali í leik og er í 4. sæti yfir stigahæstu leikmenn EM. Aðeins Melisa Brcaninovic frá Bosníu (23,0), Elena Tsineke frá Grikklandi (19,6) og Lena Elisabeth Svanholm frá Danmörku (19,0) hafa skorað meira.

Íslenska U-18 ára liðið.mynd/kkí
Sylvía er í 3. sæti yfir frákastahæstu leikmenn mótsins, með 11,0 fráköst að meðaltali í leik. Liðsfélagi hennar, Elín Sóley Hrafnkelsdóttir, er í 4. sætinu á frákastalistanum með 10,2 fráköst að meðaltali í leik.

Sylvía er í 2. sæti þegar kemur að stolnum boltum. Hún hefur stolið 3,8 boltum að meðaltali í leik en hin finnska Lotta-Maj Lahtinen er sú eina sem hefur stolið fleiri boltum í leik (4,6).

Sylvía er í 4. sæti á listanum yfir flest framlagsstig en hún er með 21,2 slík að meðaltali í leik.

Þá er hún í 6. sæti á listanum yfir varin skot (1,2) og flestar mínútur að meðaltali í leik (33,1).

Leikurinn í kvöld hefst klukkan 19:00. Með sigri tryggja íslensku stelpurnar sér sæti í úrslitaleiknum og um leið sæti í A-deild Evrópumótsins. Í hinum undanúrslitaleiknum mætast Bosnía og Svíþjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×