Innlent

Sýknaður af ákæru um að hafa kýlt nágrannakonu sína

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
vísir/gva
Hæstiréttur hefur staðfest sýknudóm Héraðsdóms Vestfjarða yfir karlmanni sem ákærður var fyrir líkamsárás á hendur nágrannakonu sinni á síðasta ári. Honum var gefið að sök að hafa kýlt konuna í andlitið fyrir utan heimili hennar í nóvember 2014. Dómurinn taldi framburð konunnar óstöðugan og í ósamræmi við framburð annars vitnis.

Konan sakaði manninn um að hafa kýlt sig einu höggi með krepptum hnefa í andlit þar sem hún stóð við útidyr heimilis síns með þeim afleiðingum að hún féll við. Hlaut hún bólgur á vinstra auga og kinnbeini.

Hún sagði manninn hafa verið að „sniglast“ fyrir utan heimili sitt þannig að hundur hennar hafi byrjað að gelta. Hún hafi farið út og séð manninn með Border Collie hund, og að hann hefði sagst vera að viðra hundinn. Hann hafi svo kýlt hana fyrirvaralaust.

Maðurinn var nokkuð ölvaður þegar lögregla náði af honum tali síðar um daginn, en hann neitaði að hafa gert konunni nokkuð.

Dómurinn taldi nokkuð ósamræmi í frásögn konunnar eftir framburð vitna og var því ekki talið að komin væri fram lögfull sönnun þess að maðurinn hefði veist að konunni. Hann var því sýknaður af ákærunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×