Innlent

Sýknaðir af kröfu LÍN vegna fyrningar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Tveir menn voru sýknaðir af kröfu LÍN um greiðslu og ábyrgð námsláns vegna þess að krafan var fyrnd.
Tveir menn voru sýknaðir af kröfu LÍN um greiðslu og ábyrgð námsláns vegna þess að krafan var fyrnd. Vísir/Valli

Tveir menn hafa verið sýknaðir af kröfu Lánasjóðs íslenskra námsmanna um endurgreiðslu á 6,5 milljóna skróna skuld annars mannsins vegna námslána sem hann tók. Var hinn maðurinn í ábyrgð fyrir lánið. Krafa LÍN taldist fyrnt þar sem ekki var lögð fram krafa í þrotabú mannsins.

Málsatvik voru þannig að einstaklingurinn sem um ræðir tók námslán árið 1999 vegna náms í almannatengslum og svo aftur árið 2004 vegna framhaldsnáms í alþjóðastjórnmálum. 

Greiddi hann samviskusamlega af námslánum sínum frá námslokum til 1. mars 2010 en þá var hann kominn í greiðsluaðlögun og hófst þá tímabundin frestun greiðslna hjá honum.

Fórst fyrir að lýsa kröfu í þrotabú mannsins

Þann 8. september 2011 krafðist einstaklingurinn þess að bú sitt yrði tekið til gjaldþrotaskipta og var það tekið til slíkra skipta 31. september sama ár. LÍN lýsti ekki kröfu í þrotabúið og kom fram hjá fyrirsvarsmanni LÍN við skýrslugjöf fyrir dómi, að það hefði farist fyrir.

Árið 2014 hóf Lánasjóðurinn aftur að rukka manninn vegna námslánanna, greiddi hann fyrstu afborgunina en hafnaði eftir það að þurfa að greiða af láninu.

Að mati Lánasjóðsins skuldbatt maðurinn sig til þess að greiða lánið og með því að greiða fyrstu afborgunina mætti telja að hann viðurkenndi skuld sína.

Samkvæmt lögum frá 2010 fyrnast kröfurnar á tveimur árum og mátu maðurinn og sá sem var í ábyrgð fyrir láninu stöðuna þannig að þar sem meira en tvö ár væru liðin frá gjaldþrotaskiptum teldist krafa LÍN fyrnd.

Héraðsdómur mat það svo að krafa LÍN væri fyrnd enda hafi Lánasjóðurinn ekki gert kröfu í búið innan hins tveggja ára fyrningarfrests. Því var maðurinn sýknaður af kröfu LÍN ásamt hinum manninum en að mati dómsins væri ekki hægt að gera kröfu tul ábyrgðarmannsins af sömu ástæðu og hinn maðurinn var sýknaður.

LÍN var einnig gert að greiða 600.000 krónur í málskostnað.


Tengdar fréttir

Ólöglærð lagði LÍN

Lánasjóðurinn fór fram á að konunni yrði gert að greiða 4,4 milljónir og málskostnað. Konan sagði kröfugerðina vanreifaða og fór fram á frávísun. Dómurinn féllst á það og hefur LÍN verið gert að greiða málskostnað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×