Enski boltinn

Swansea vill gera langtímasamning við Gylfa

Anton Ingi Leifsson skrifar
Gylfi í leik með Swansea.
Gylfi í leik með Swansea. vísir/getty
Samkvæmt heimildum South Wales Evening Post er Swansea að undirbúa samningaviðræður við Gylfa Þór Sigurðsson um langtímasamning við félagið.

Staðarblaðið hefur eftir heimildum að stjórnarmenn Swansea vilji fara að setjast að samningaborðinu með umboðsmanni Gylfa og honum sjálfum, en það verður líklega ekkert fyrr en eftir EM þar sem Gylfi er staðsettur.

Velska-liðið er sagt vilja bjóða Gylfa langtímasamning, en hann hefur verið einn af máttarstólpum liðsins. Gylfi hefur verið orðaður við borð á við Fiorentina og ensku meistarana í Leicester.

Gylfi gekk fyrst í raðir Swansea á láni frá Hoffenheim í janúar 2012 þar sem hann fór á kostum þar sem hann skoraði sjö mörk og gaf fjórar stoðsendingar á hálfu tímabili með liðinu.

Hann fór svo til Tottenham í tvö tímabil áður en hann gekk aftur í raðir Swansea þar sem hann hefur spilað 68 leiki og skorað átján mörk. Einnig hefur hann lagt upp fjöldan allan af mörkum.

Gylfi er nú með íslenska landsliðinu í Annecy að undirbúa sig fyrir stórleikinn gegn Portúgal á þriðjudaginn, en það verður fyrsti leikur Íslands á stórmóti í knattspyrnu karla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×