Enski boltinn

Swansea of háð Gylfa og Ayew

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ayew og Gylfi Þór fagna marki í leik með Swansea.
Ayew og Gylfi Þór fagna marki í leik með Swansea. Vísir/AFP
Alan Curtis, þjálfari Swansea, segir að liðið sé of háð mörkum þeirra Andre Ayew og Gylfa Þórs Sigurðssonar og að fleiri þurfi að leggja í púkkið.

Saman hafa þeir skorað fimmtán af 24 mörkum liðsins í ensku úrvalsdeildinni í vetur en aðeins eitt lið hefur skorað færri mörk í vetur en Swansea. Ayew hefur skorað átta mörk og Gylfi Þór sjö.

„Það vantar enn einhvern hjá félaginu til að fylla í skarðið sem Wilfried Bony skildi eftir sig,“ sagði Curtis en Bony var seldur til Manchester City í janúar í fyrra.

Swansea samdi við sóknarmanninn Alberto Paloschi í síðasta mánuði en hann hefur ekki enn náð að skora fyrir sitt nýja félag.

„Við fengum Alberto til að skora mörk en ábyrgðin verður að liggja hjá liðinu öllu. Alberto var ekki fenginn til að vera aðalmaðurinn en til að leggja sitt af mörkum.“

„Ég held að við séum of háðir því að Andre og Gylfi skori mörkin og þetta þarf að dreifast á fleiri menn.“

Swansea fer í heimsókn til Tottenham á sunnudag, gamla heimavöll Gylfa Þórs. Swansea er í sextánda sæti deildarinnar, þremur stigum frá fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×