Erlent

Svört skýrsla um barnaníð veldur titringi í Bretlandi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Theresa May gegnir stöðu innanríkisráðherra fyrir Íhaldsflokkinn
Theresa May gegnir stöðu innanríkisráðherra fyrir Íhaldsflokkinn Vísir/Getty
Theresa May, innanríkisráðherra Bretlands, gagnrýnir lögreglu og félagsmálayfirvöld í Rotherham harðlega fyrir að bregðast um 1400 börnum og ungmennum sem voru misnotuð kynferðislega af hópi manna í bænum á árunum 1997 til 2013.

May sagði á breska þinginu að tryggja yrði að gerendurnir yrðu sóttir til saka.Hún lagði einnig áherslu á að allir opinberir aðilar væru samábyrgir fyrir því að tryggja öryggi barna í landinu. Innanríkisráðherrann hyggst boða til fundar með ráðherrum í ríkisstjórninni þar sem skoðað verður hvað gera megi til að koma í veg fyrir að slíkir atburðir endurtaki sig.

Málið hefur vakið mikinn óhug í Bretlandi en um það var fjallað í ítarlegri skýrslu sem kom út í seinustu viku. Í skýrslunni kemur fram að hundruðum barna hafi ítrekað verið nauðgað, þau flutt á milli borga og bæja í Norður-Englandi og verið beitt líkamlegu og andlegu ofbeldi af fjölmennum glæpagengjum karlmanna.

Yfirvöld og lögregla í South Yorkshire og Rotherham sitja undir harðri gagnrýniVísir/Getty
Yfirvöld í Rotherham og lögreglan í South Yorkshire eru sökuð um alvarlega vanrækslu í tengslum við málið en svo virðist sem óyggjandi sannanir hafi legið fyrir árum saman án þess að gripið hafi veriðtil nokkurra aðgerða.

Meirihluta gerendanna er af asískum uppruna en þolendurnir hvítar stúlkur.Talið er að málinu hafi verið sópað undir teppi m.a. af ótta opinberra starfsmanna við að vera sakaðir um kynþáttahatur ef þeir tækju málið upp.

Skýrslan hefur valdið miklum titringi innan Verkamannaflokksins en Shaun Wright, lögreglustjóri í South Yorkshire, var yfirmaður þjónustu sem veitt er börnum í Rotherham á því fimm ára tímabili þegar brotin áttu sér stað. Hann hefur nú sagt sig úr Verkmannaflokknum en neitar að segja af sér sem lögreglustjóri. Búist er við að Wright komi fyrir þingnefnd á næstu dögum til að svara fyrir vanrækslu lögreglu í málinu.

Þá hefur forysta Verkamannaflokksins rekið fjóra aðra úr flokknum sem einnig gegndu ábyrgðarstöðum á því sextán ára tímabili sem brotin voru framin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×