Jól

Svona skreyti ég tréð í ár

Marín Manda skrifar
Flestir halda í þá hefð að skreyta jólatréð á Þorláksmessu en sumir geta alls ekki beðið.



Eva Sæland, starfar hjá Kronbykronkron

„Börnin mín eru fædd erlendis og fórum við ávallt til Íslands yfir hátíðarnar. Ef við hefðum haldið okkur við þær hefðir sem ég ólst upp við sem barn þá hefðum við aldrei skreytt tréð né heimilið okkar úti. Ég tók því upp á því að skreyta snemma svo að börnin upplifðu jólastemninguna heima hjá sér, ekki bara á flakki milli ættingja á Íslandi. Þemað í ár er rautt og hvítt því það er svo jólalegt. Ég keypti fyrsta skrautið á tréð í þeim litum fyrir nokkrum árum og hef haldið mig við það. Yfirleitt bætast nokkrar nýjar kúlur í safnið á hverju ári. Ég setti ljósaseríuna á en börnin allt annað skraut. Hingað til hef ég svo þurft að „laga“ eftir þau en í ár skreyttu þau af mikilli lyst og mamman ansi ánægð með árangurinn.“

Þórunn Hulda Vigfúsdóttir , förðunarfræðingur.

„Í ár ákvað ég að hafa smá gamaldags fíling og nota kúlur í ýmsum litum, t.d. gull og brúnt, með blúndum. Ég hef aldrei verið að festa mig í einhverju ákveðnu þema, fjölskyldunni til mikillar ánægju. Á þriðja í aðventu keyptum við jólatré og spennan var svo mikil hjá dætrum mínum að við ákváðum að skreyta snemma í ár. Þessi yndislegi jólatími er alltof stuttur svo til hvers þá að vera að bíða. Að skreyta tréð er mikil athöfn hér á heimilinu og dætur mínar taka virkan þátt. Þá fáum við okkur eitthvað gotterí og hlustum á jólalög með Baggalút.“

Ásta Sveinsdóttir, meðeigandi Roadhouse og suZushii.

„Við ákváðum að skreyta tréð mjög snemma í ár vegna þess að við eyðum jólunum í Vestmannaeyjum þetta árið. Við erum með fallegt hvítt tré en ég dáðist alltaf að gulltrénu sem amma og afi áttu þegar ég var lítil en ég fann ekki gulltré. Skrautinu höfum við sankað að okkur undanfarin ár eftir að ég hóf búskap. Postulín geisur, hnetubrjótar, hreindýr, postulín-sveppir, gler og flauelskúlur í mismunandi litum. Við vildum hafa svolítið af andstæðum og því er þetta svolítið skipulagt kaós-þema. Dóttir mín hjálpaði mér að skreyta á meðan við hlustuðum á James Last Christmas Album. Hún kastaði síðan litlum stjörnum sem festast á trénu líkt og ég gerði sem lítil stelpa.“






×