Körfubolti

Svona er sumarið hjá Hauki Helga, Herði Axel og Martin | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hörður Axel, Haukur Helgi og Martin eru á fullu í sumar.
Hörður Axel, Haukur Helgi og Martin eru á fullu í sumar. mynd/kkí
Þó deildarkeppnin í körfubolta hér heima sé í sumarfríi er KKÍ að hvetja alla til að halda sér á tánum með verkefninu Körfuboltasumarið. Það á líka við um landsliðsfólkið okkar.

Körfuboltasumarið á að efla iðkun körfuknattleiks yfir sumartímann. Verkefnið nær yfir sumrin 2016 og 2017 og er það styrkt af Þróunarsjóði FIBA Europe (FIBA Europe Development Fund).

Fyrsti áfangi verkefnisins snýst um að A-landsliðsfólk heimsæki þau félög sem eru með sumaræfingar og eða námskeið. Verða landsliðsmennirnir til taks fyrir þau félög sem óska eftir því.

Annar áfangi verkefnisins snýst um að setja á laggirnar götukörfuboltamót. Í sumar verður haldið úti-götuboltamót og ef vel til tekst verður þeim fjölgað á næsta ári.

Í þriðja áfanganum verða búin til myndbönd með landsliðsfólkinu okkar þar sem þau gera sínar uppáhaldsæfingar og eða sýna hvernig þau æfa á sumrin.

Myndbönd þessi verða gerð aðgengileg á netinu og munu þau auka aðgengi ungra iðkenda að skemmtilegum og flottum æfingum sem þau geta gert sjálf.

Eitt slíkt myndband má sjá hér að neðan en þar taka landsliðsmennirnir Hörður Axel Vilhjálmsson, Haukur Helgi Pálsson og Martin Hermannsson vel á því í ræktinni og taka nokkur skot í Laugardalshöllinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×