Viðskipti innlent

Svona er listinn yfir stór útboð í vegagerð 2015

Kristján Már Unnarsson skrifar
Engin ný stór verkefni verða boðin út í vegagerð á næsta ári, ef fram fer sem horfir. Vegamálastjóri segir brýnna að setja alla peningana í viðhald vega.

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri segir að áformað hafi verið að verja sjö til áttahundruð milljónum króna í ný verkefni en nú séu horfur á að allt féð fari í viðhald. Bæði Vegagerðin og innanríkisráðherra hafi rætt um að þetta fé færi frekar í viðhald vega og þjónustu. Einnig hafi ályktanir borist frá sveitarfélögum um að brýnna sé að setja allt viðbótarfé í viðhald vega. Það verði þó ekki ljóst fyrr en við afgreiðslu fjárlaga hversu mikið fé verði sett í nýframkvæmdir.

Listi næsta árs yfir helstu útboð stefnir í að verða talsvert breyttur frá því sem menn hafa vanist undanfarna áratugi. Það er einfaldlega hvergi gert ráð fyrir að nýtt stórt verk verði boðið út.

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
„Það verða allavega einhver smærri verkefni, slitlag á tengivegi og ýmislegt fleira. En ef þetta færi þannig að þetta fé, sem kom inn í frumvarpið, yrði sett í viðhald og þjónustu, þá er ekki um að ræða útboð á neinum stærri framkvæmdum á næsta ári,“ segir vegamálastjóri.

Og hann er langur verkefnalistinn sem vegamálastjóri gerði ráð fyrir að bjóða út á næsta ári, miðað við samgönguáætlun; brú á Jökulsá á Fjöllum, Dettifossvegur, Arnarnesvegur í Kópavogi, hringvegurinn í Berufirði, Reykjavegur í Árnessýslu og fleira.

„Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvað af þessum verkefnum yrði farið í, ef það fæst eitthvert fé í slíkar nýjar framkvæmdir.“

-Miðað við horfur nú, er líklegt að allt þetta verði slegið af?

„Ekki slegið af. Yrði þá frestað. Því við treystum því nú að það yrði ekki meira en ársfrestun á þessum verkefnum því menn verða að fara að gera eitthvað í viðhaldi vega og bæta þjónustuna. Það er allstaðar kallað eftir þvi þannig að það mun ganga fyrir.“

Frá lagningu fyrsta áfanga nýs Dettifossvegar árið 2009. Til stóð að bjóða út lokaáfangann á næsta ári.Stöð 2.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×