Fótbolti

Svissnesk yfirvöld reyna að ná Beckenbauer

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Beckenbauer á góðri stundu.
Beckenbauer á góðri stundu. vísir/getty
Yfirvöld í Sviss eru ekki hætt að reyna að fletta ofan af mútumálum í tengslum við að Þýskaland fékk HM árið 2006. Farið var í skipulagðar aðgerðir út af málinu í vikunni og leitað í nokkrum húsum.

Spjótin beinast að framkvæmdastjórn HM 2006 þar sem knattspyrnugoðsögnin Franz Beckenbauer sat meðal annars. Hann hefur neitað öllum ásökunum um spillingu.

Fjölmiðlar í Þýskalandi segja að meðlimum FIFA hafi verið mútað til þess að Þýskaland fengi mótið. Sömu ásakanir og hafa verið með flestar Heimsmeistarakeppnir á þessari öld.

Samkvæmt þýskum miðlum var sérstakur sjóður notaður í múturnar og kom mikið af peningunum úr þeim sjóði frá Robert Louis-Dreyfus sem var yfirmaður Adidas. Hann er nú látinn.

Verið er að rannsaka fjóra einstaklinga og Beckenbauer er einn þeirra eins og áður segir. Sérstaklega er verið að skoða greiðslu til FIFA upp á 1,1 milljarð króna árið 2005.

Svissnesk yfirvöld hófu rannsókn á þessu máli fyrir ári síðan og fyrir viku síðan var leitað í nokkrum húsum að sönnunargögnum.

Á meðal þeirra sem nú er verið að rannsaka er Urs Linsi sem var framkvæmdastjóri FIFA frá 2002 til 2007.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×