Fótbolti

Sviss og Spánn mætast í úrslitaleiknum á EM á Íslandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Svisslendingurinn Naomi Megroz í leiknum í kvöld.
Svisslendingurinn Naomi Megroz í leiknum í kvöld. Vísir/Getty
Svissnesku stelpurnar tryggðu sér dramatískan 1-0 sigur á Þýskalandi á síðustu mínútunni í seinni undanúrslitaleik EM 17 ára landsliða kvenna í fótbolta sem fer fram þessa dagana á Íslandi.

Báðir undanúrslitaleikirnir fóru fram á Vodafone-vellinum á Hlíðarenda en þar verður úrslitaleikurinn einnig spilaður á laugardaginn.

Þýskaland hafði titil að verja og fékk vissulega færin til að þess að tryggja sér sæti í úrslitaleiknum. Ekkert af 19 skotum þýska liðsins rataði rétta leið og heppnin var ekki með með þýsku á Hlíðarenda í kvöld.

Svissnesku stelpurnar vörðust vel og tókst síðan að skora markið mikilvæga rétt fyrir leikslok. Það var varmaðurinn Amira Arfaoui sem var hetja svissneska liðsins en hún hafði komið inná 24 mínútum fyrr.

Fyrr í dag hafði Spánn komist í úrslitaleikinn eftir sigur á Frakklandi í vítakeppni. Spænska liðið jafnaði metin í 1-1 rétt fyrir leikslok og vann síðan vítakeppnina 5-4.

Frönsku stelpurnar klikkuðu á tveimur vítum en þær spænsku aðeins einu. Markahæsti leikmaður liðsins, Lucía García, skoraði úr síðustu spyrnunni og kom spænska liðinu í úrslitaleikinn.

Spænska 17 ára landsliðið, sem tapaði úrslitaleiknum í þessari keppni í fyrra, er komið í sinn fimmta úrslitaleik en þetta er í fyrsta sinn sem svissneska sautján ára landsliðið kemst svona langt.



Grein um leik Sviss og Þýskalands á heimasíðu KSÍ

Sviss leikur við Spán í úrslitaleik U17 kvenna en svissneska liðið vann 1-0 sigur á Þýskalandi í undanúrslitum. Sviss vann 1-0 sigur á Þýskalandi í undanúrslitum í spennandi leik.

Fyrri hálfleikur leiksins var heldur bragðdaufur en hvorugt lið náði að skapa sér nein dauðafæri. Svissneska liðið varðist vel og náði að brjóta niður sóknir Þýskalands.

Það var því markalaust í hálfleik þar sem þýska liðið var sterkara án þess þó að ná að skora. Þýska liðið setti í hágír strax í byrjun seinni hálfleiks og pressaði hátt á vellinum. Færin voru fljót að koma og þurfti markmaður Sviss að taka vel á því svo þýska liðið kæmist ekki yfir í leiknum. Sviss átti líka sín færi en án þess þó að koma boltanum framhjá markmanni þýska liðsins.

Það stefndi allt í vítakeppni þegar Sviss komst í góða sókn og það var Amira Arfaoui sem skoraði framhjá markmanni Þýskalands. Þetta var eina mark leiksins og það tryggði Sviss sæti í úrslitaleiknum.

Sviss er því komið í úrslitaleikinn þar sem það mætir Spánverjum. Leikurinn fer fram á Valsvelli á laugardaginn, 4. júlí, og er blásið til leiks klukkan 16:00



Grein um leik Spánar og Frakklands á heimasíðu KSÍ

Spánn tryggði sér sæti í úrslitaleik EM U17 kvenna með sigri á Frökkum en leikurinn endaði í vítakeppni. Spánn vann samanlagt 5-4 eftir vítakeppnina og mætir því Sviss eða Þýskalandi í úrslitaleiknum.

Leikurinn var hinn fjörugasti en Frakkar komust yfir á 63. mínútu þegar Sarah Galera skoraði mark eftir krafs í vítateig Spánverja. Það var ekki mikið eftir af leiknum þegar Spánn jafnaði metin þegar Natalia Montilla vippaði knettinum yfir markmann Frakka af löngu færi. Markið kom á 79.mínútu og stuttu síðar var blásið til leiksloka.

Það var því farið beint í vítakeppni en ekki er framlengt á þessum aldri. Frakkar klikkuðu á tveimur vítum og Spánn á einu og það voru því Spánverjar sem tryggðu sér sigurinn 5-4 samanlagt og sæti í úrslitaleiknum á laugardaginn.

Spánn mætir annaðhvort Þýskalandi eða Sviss en þessi lið eigast við klukkan 19:00 í kvöld.

Stemningin á leiknum var frábær en 807 komu í stúkuna og studdu dyggilega við bakið á liðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×