Innlent

Sviss gæti orðið fyrsta landið í heimi til að innleiða laun fyrir alla borgara

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Samkvæmt skoðanakönnunum myndu 54 prósent svarenda sækja sér meiri menntun ef þau fengju borgaralaun.
Samkvæmt skoðanakönnunum myndu 54 prósent svarenda sækja sér meiri menntun ef þau fengju borgaralaun. Nordicphotos/AFP
Þann fimmta júní næstkomandi ganga Svisslendingar að kjörborðinu til að kjósa um skilyrðislausa grunnframfærslu eða svokölluð borgaralaun. Ef tillagan yrði samþykkt yrði Sviss fyrsta ríkið í heiminum til að bjóða upp á borgaralaun.

Þjóðaratkvæðagreiðslan er í reynd breyting á stjórnarskrá Sviss þar sem öllum borgurum yrði tryggð ákveðin lágmarksframfærsla óháð stöðu. Tillagan sem liggur fyrir er upp á 2.500 svissneska franka í framfærslu eða 320 þúsund íslenskar krónur.

Í skoðanakönnun fyrirtækisins Demoscobe segir meirihluti Svisslendinga að þeir myndu halda áfram vinnu þrátt fyrir að fá borgaralaun, einungis tvö prósent sögðust ætla að hætta að vinna. Þá voru 54 prósent sem sögðust vilja nýta aukatekjurnar til að ná sér í frekari menntun.

Halldóra Mogensen
Píratar hafa lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi sem svipar til þeirrar sem fer í atkvæðagreiðslu í Sviss. Tillagan býður ekki upp á útfærslu heldur er félagsmálaráðherra falið að útfæra hugmyndina.

Halldóra Mogensen, varaþingmaður Pírata er flutningsmaður tillögunnar, segir það vera þess virði að sjá útfærsluna og meta hvort hún væri samfélaginu til bóta.

„Þetta er spennandi hugmynd,“ segir hún. „Það er þess virði að skoða hvort þetta gæti verið ódýrara fyrir okkur.“ 

Hún vísar í tilraun sem var framkvæmd í bænum Dauphin í Manitoba-fylki í Kanada á árunum 1974 til 1979. Þar á bæ var boðið upp á borgaralaun og niðurstöðurnar fólu meðal annars í sér að fólk treysti menntun sína auk þess sem útgjöld vegna heilbrigðismála drógust saman.

„Þar kom í ljós er að fólk var ekkert að hætta að vinna. Það var það sem fólk var svo hrætt við, að þetta myndi hafa mikil áhrif á vinnumarkaðinn. Eina fólkið sem hætti að vinna var í raun og veru ungt fólk sem fór frekar í nám og kom þá seinna inn á vinnumarkað sterkara. Og svo nýbakaðar mæður sem vildu fá að sinna börnunum sínum betur,“ segir Halldóra.

Þá fækkaði heimsóknum í heilbrigðiskerfinu í Dauphin um 8,5 prósent. Halldóra segir þetta einnig geta komið í veg fyrir að fólk þurfi að þræla sér út til að ná endum saman. Í staðinn fær fólk svigrúm til að huga að sjálfu sér, til dæmis með því að sækja sér menntun eða sinna áhugamálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×