Viðskipti innlent

Svipmynd Markaðarins: Vefur Hollywood-stjörnur í bómull

Haraldur Guðmundsson skrifar
Marín slasaðist illa á skíðum í febrúar en hefur nú jafnað sig.
Marín slasaðist illa á skíðum í febrúar en hefur nú jafnað sig. Vísir/GVA
„Margir halda að það sé mest að gera hjá okkur yfir hásumarið en þetta er rólegasti tími ársins því fyrirtæki eru stór hluti af okkar viðskiptavinum og þau eru þá flest öll í sumarfríi,“ segir Marín Magnúsdóttir, eigandi og framkvæmdastjóri viðburða- og ferðaþjónustufyrirtækisins Practical.

„Við fáum einnig mikið af erlendum og efnasterkum einstaklingum sem vilja vera í bómull og fá þjónustu allan sólarhringinn. Það hafa komið í gegnum okkur frægar stjörnur og þekkt fólk sem enginn veit af og við leggjum okkur mikið fram við að það fari ekki í blöðin.“

Marín er fædd og uppalin á Hólmavík. Hún flutti í bæinn sex­tán ára gömul til að fara í framhaldsskóla og fór þá meðal annars í skiptinám til Ástralíu. Nokkrum árum síðar flutti hún til Ástralíu og þá til Brisbane þar sem hún bjó í fjögur ár.

„Ég er Ástralíusjúk og er með miklar tengingar þangað og fjölskyldan sem ég var hjá í skipti­náminu er einmitt að koma til mín í heimsókn næstu jól,“ segir Marín.

Hún lauk námi í viðskiptafræði við Queensland University of Technology með áherslu á markaðs- og almannatengsl árið 2004. Sama ár flutti hún aftur heim og stofnaði Practical.

„Þetta er hark og maður er búinn að lifa tímana tvenna. Frá 2004 til 2007 var allt að gerast og flugeldasýningar alla daga en svo hrundi þessi heimur á einni nóttu eins og margt annað. Þetta hefur verið að rétta aftur úr kútnum á síðustu tveimur árum,“ segir Marín.

„Í byrjun vorum við bara að róa og ná okkur í viðskipti. Svo vorum við komin um borð í skemmtiferðaskútu þar sem allt var að gerast og nánast ekki að því spurt hvað hlutirnir kostuðu. Eftir hrun vorum við komin á orrustuskip þar sem við þurftum að berjast fyrir hverjum kúnna.“

Marín nefnir fjölskylduna, hlaup og skíði þegar hún er spurð um áhugamál.

„Reyndar slasaði ég mig illa á skíðum í febrúar þegar ég braut fjögur rifbein í baki á skíðasvæði í Austurríki. Ég var á spítala þar í viku og kom svo heim með sjúkraflugi og í hjólastól. Ég er er orðin nokkuð góð núna finnst mér,“ segir Marín. Hún ætlar að eyða sumarfríinu með fjölskyldunni á ferð um landið.

„Ég er nýkomin frá Bandaríkjunum þar sem ég var á flakki um New York og Washington og svo um Vancouver í Kanada. Núna hlakka ég til að ferðast um landið og vera hérna á Íslandi yfir hásumarið. Svo taka við spennandi tímar í haust þar sem veturinn hjá okkur í fyrirtækinu lofar góðu.“

Gunnhildur Arna
Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans.

„Marín hefur gífurlegan viljastyrk og skýra sýn. Hún tekur allt með trompi. Gott dæmi er að hlaupin urðu að maraþoni. Og hún er traust. Hún gæfi ekki upp leyndarmálin þótt hún lægi í gapastokki. Svo er hún vel jarðtengd og því er frábært að sækja til hennar ráð sem skilja hismið frá kjarnanum. 

Hún er alltaf á fleygiferð; hvort sem er í vinnu eða heima fyrir, og því koma gæðastundirnar þar sem hún ekur á milli funda sér vel. Þá tökum við stöðuna hvor hjá annarri – hún með mig á speaker í bílnum að sjálfsögðu. Þegar við hittumst gerast ævintýri sem verða að hressilegum minningum. Alltaf.“

Jón Karl Ólafsson
Jón Karl Ólafsson, forstjóri Primera Air.

„Það hefur verið afskaplega gaman að fylgjast með Marín í starfi og leik. Hún hefur komið víða við í stjórnum og daglegum rekstri fyrirtækja og það er alltaf líf og fjör þar sem Marín er. Practical er frábært fyrirtæki sem hún hefur byggt upp með góðu starfsfólki.

Fyrirtækið er góð lýsing á Marín sjálfri, þar sem allt byggir á góðri þjónustu og sífellt er reynt að setja punktinn yfir i-ið. Það er oft eins og góð sudoku-þraut að finna tíma með Marín, en það er alltaf þess virði.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×