Viðskipti innlent

Svipmynd Markaðarins: Vann hjá GlaxoSmithKline í London

Guðrún hefur starfað í lyfjageiranum í sautján ár.
Guðrún hefur starfað í lyfjageiranum í sautján ár. Vísir/Valli
„Við ætlum nú að tala við fjárfesta og safna fjármagni svo við getum unnið að fyrirliggjandi verkefnum,“ segir Guðrún M. Ásgrímsdóttir, framkvæmdastjóri sprotafyrirtækisins Lipid Pharmaceut­icals (LP) sem hefur þróað lyf til meðhöndlunar á börnum og fullorðnum sem þjást af hægðatregðu.

Áform LP gera ráð fyrir að lyfið verði komið á markað innan þriggja ára en Guðrún vinnur nú að hlutafjáraukningu fyrirtækisins.

„Við erum komin langt með þessar rannsóknir en þurfum að klára ákveðna þætti í þeim til að fá lyfið skráð.“

Guðrún hefur starfað hjá LP frá árinu 2010 og í lyfjageiranum frá 1997. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1990. Eftir það fór hún á námsstyrk til Bandaríkjanna þar sem hún lærði við Valdosta State University í Georgia í Bandaríkjunum í eitt ár.

„Eftir það kom ég aftur til Íslands og kláraði lyfjafræðina árið 1997 en námið hét þá lyfjafræði lyfsala og er í dag það sama og meistarapróf í lyfjafræði,“ segir Guðrún.

Hún starfaði hjá fyrirtækinu Omega Pharma frá 1997 til 2000. Eftir það var hún ráðin til eins stærsta lyfjafyrirtækis heims, GlaxoSmithKline, og vann á rannsóknarstofu fyrirtækisins í úthverfi London.

„Þar var ég í eitt ár og svo var ég að vinna á spítala í London sem klínískur lyfjafræðingur og kláraði diplómapróf í klínískri lyfjafræði við University of London. Árið 2005 byrjaði ég svo að vinna hjá GlaxoSmithKline á Íslandi við sölu- og markaðsmál og var þar þangað til ég hóf störf hjá LP.“

Guðrún er í sambúð með Sigurði Herði Kristjánssyni skipstjóra og þau eiga tvær dætur, sjö og fjórtán ára.

„Veturnir snúast um að fara á skíði og svo reyni ég að komast í líkamsrækt og í göngur á sumrin. Svo sit ég heima og prjóna þegar ég hef tíma til þess en starfið og barnauppeldið tekur mest af mínum tíma,“ segir Guðrún.

„Svo er fram undan að undirbúa aðventuna og jólin og einnig að sinna öðrum verkefnum LP eins og þróun nýs smyrsls sem við erum með í pípunum.“

Katrín Pétursdóttir
Katrín Pétursdóttir, forstjóri Lýsis

„Guðrún er sérlega atorkumikil manneskja og hefur mikinn áhuga á viðfangsefninu hverju sinni. Hún er ósérhlífin þegar kemur að því að koma hlutunum í verk, gerir það sem þarf að gera þegar þess þarf. Ég hitti hana á stjórnarfundi Lipid Pharmaceuticals um daginn og þá var hún að segja mér af miklum eldmóði að hún væri að fara austur fyrir fjall til að hitta dýralækna og kanna möguleika á notkun á lýsiskremi fyrir júgur á kúm vegna ástigssára. Já, það þarf líka að huga að blessuðum skepnunum og drífa sig þá bara austur.

Ég kann nú bara ekki að segja frá neinum göllum í hennar fari enda ekki orðið vör við neina. Guðrún er bara toppmanneskja.“

Þór Sigfússon
Þór Sigfússon, framkvæmdastjóri Íslenska sjávarklasans

„Hún er einn af þessum frumkvöðlum sem nýi sjávarútvegurinn þarf á að halda. Hún er eldklár og með metnað til að gera t.d. omega-lyf og heilsuefni úr fiskinum okkar. Þannig getum við margfaldað verðmæti sjávarafurða okkar.

Hún er fylgin sér og vinnur vel í teymi. Við vorum í Boston að kynna nokkur framúrskarandi íslensk líftæknifyrirtæki í síðasta mánuði, þar á meðal Lipid Pharmaceuticals og Codland. Þarna stóðu upp m.a. Guðrún fyrir Lipid og Erla Ósk Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Codlands, og kynntu fyrirtæki sín. Maður gat ekki annað en fyllst stolti að eiga svona flotta fulltrúa nýja sjávarútvegsins.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×