Viðskipti innlent

Svipmynd Markaðarins: Langar að lyfta fleiri kílóum í clean og jerk

Guðrún Hafsteinsdóttir, markaðsstjóri Kjöríss og formaður Samtaka iðnaðarins.
Guðrún Hafsteinsdóttir, markaðsstjóri Kjöríss og formaður Samtaka iðnaðarins. Vísir/Anton
Guðrún Hafsteinsdóttir, markaðsstjóri Kjöríss og formaður Samtaka iðnaðarins (SI), lærði mannfræði í Háskóla Íslands og hefur stýrt markaðssetningu fjölskyldufyrirtækisins frá árinu 2008. Hún býr í Hveragerði, finnst gaman að elda góðan mat og hefur setið sem formaður SI í þrjú ár. Guðrún situr hér fyrir svörum í Svipmynd Markaðarins.

Hvaða app notarðu mest?

Ég er með alls konar öpp en líklega nota ég mest Facebook og Mess­enger en einnig Leggja, Veðrið, Keldan, Púlsinn og Snap­chat. Ég nota einnig Sarpinn mikið þar sem ég eyði miklum tíma í bíl og þá er gott að geta hlustað á góða þætti eins og Í ljósi sögunnar og annað gott af RÚV. Leggja-appið er samt það sem hefur gert hvað mest fyrir mig enda hef ég sloppið við margar stöðumælasektir eftir að ég fór að nota það.

Hvað gerir þú í frístundum þínum?

Það fer nú drjúgur tími í heimilisstörfin, heimilið þrífur sig ekki sjálft því miður! En þess utan reyni ég að rækta fjölskyldu- og vinatengslin. Ég fer mikið í leikhús og svo hljóta það nú að vera ellimerki en mér finnst orðið óskaplega gaman að dútla í garðinum mínum þegar fer að vora og á sumrin. Mér finnst gaman að elda mat og finnst fátt betra en að dunda mér í eldhúsinu. Ég get verið allan daginn í einhverju matarstússi og svoleiðis daga er dásamlegt að enda í góðra vina hópi við borðstofuborðið.

Hvernig heldur þú þér í formi?

Ég bý á svo dásamlegum stað sem býður upp á ótal gönguleiðir stutt frá mínu heimili. Ég reyni að fara út að ganga á hverjum degi. Mér finnst einnig gott að fara í sund. Nýjasta uppátækið er þó Crossfit en ég fór að stunda það í haust. Það er ótrúlega skemmtilegt en einnig svakalega krefjandi fyrir konu sem hefur aldrei haldið á neinu um ævina nema börnum og Bónuspokum! En ég er í hvetjandi umhverfi og markmiðið er að geta gert upphífingar skammlaust einn góðan veðurdag og einhver kíló í clean and jerk.

Hvernig tónlist hlustar þú á?

Ég hlusta mikið á tónlist og hlusta nánast á allar tegundir tónlistar, fer allt eftir dagsforminu. Ég hlusta þó ekki á þungarokk og ekki á kántrí. En öll tónlist með góðum takti og góðum texta höfðar til mín því mér þykir bæði gaman að dansa og svo syng ég heilmikið í bílnum þegar enginn heyrir til.

Ertu í þínu draumastarfi?

Já, ég er í draumastarfinu. Ég starfa í Kjörís sem er óskaplega skemmtileg vinna og frábærir vinnufélagar. Síðan er ég svo heppin að hafa fengið að taka að mér margvísleg verkefni, mjög fjölbreytt sem öll eru gefandi hvert á sinn hátt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×