Viðskipti innlent

Svipmynd Markaðarins: Eyðir frítímanum í hundinn, golf og te

Haraldur Guðmundsson skrifar
Andri heldur mikið upp á Danmörku en hann bjó í landinu í fjögur ár.
Andri heldur mikið upp á Danmörku en hann bjó í landinu í fjögur ár. Vísir/GVA
„Þessa dagana fer mest af mínum tíma í að undirbúa komu 1800 og þar er allt að smella. Við erum að ráða fólk og semja við fjarskipta­fyrirtæki og önnur fyrirtæki um þessa þjónustu,“ segir Andri Árnason, framkvæmdastjóri 1800 ehf.

Andri hefur undanfarin fjögur ár unnið að því að koma á fót fyrir­tæki sem mun sérhæfa sig í sölu á upplýsingum um símanúmer einstaklinga og fyrirtækja.

„Við höfum stefnt að því að fara í samkeppni við 118 og nú lítur út fyrir að það sé að fara að takast,“ segir Andri. Hann bætir við að ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar í sumar, um breytt fyrir­komulag á miðlun símaskrárupplýsinga, hafi verið nauðsynlegur þáttur í að skapa rekstrargrundvöll nýja fyrirtækisins.

Andri er stúdent frá Verslunarskóla Íslands og hann lauk BS-námi í viðskiptafræði við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn (CBS) árið 2007.

„Ég á mjög góðar minningar þaðan og við kærastan reynum að heimsækja Danmörku eins oft og við getum,“ segir Andri.

Hann hóf störf hjá fjölskyldufyrirtækinu Miðlun sama ár og hann útskrifaðist. Faðir Andra, Árni Zophoníasson, stofnaði fyrirtækið árið 1983.

„Þegar ég byrjaði þar vann ég sem sölumaður en ég hef verið starfandi framkvæmdastjóri frá árinu 2010 og sinnt daglegum rekstri fyrirtækisins. Nú ætla ég í auknum mæli að færa mig yfir til 1800 og sinna uppbyggingu þess fyrirtækis.“

Andri er í sambúð með Sólrúnu Maríu Reginsdóttur, nema og flugfreyju hjá Icelandair. Spurður um áhugamál nefnir hann golf, te og 30 kílóa hund af tegundinni Golden Retriever.

„Ég á hundinn ásamt kærustunni. Hann er fjögurra og hálfs árs gamall og ég reyni að gefa honum eins mikla athygli og ég get. Því fylgja margir göngutúrar og mikil umönnun,“ segir Andri og heldur áfram:

„Svo rekum við fjölskyldan annað hliðarfjölskyldufyrirtæki sem heitir Tefélagið þar sem við seljum te í áskrift og í búðir og á veitingastaði. Það fer dálítill kraftur í það líka því við hittumst tvisvar í mánuði og pökkum og veljum te fyrir næstu mánuði. Te er því dálítið stór partur af mínum frítíma.“

Gunnar Már Sigfússon
Gunnar Már Sigfússon rithöfundur

„Andri er frábær drengur í alla staði og minnir mig stundum á örlítið yngri og örlítið hávaxnari útgáfu af sjálfum mér og eigum við því vel skap saman. Ég kynntist honum þegar hann eftir áralanga baráttu náði að klófesta Sólrúnu, konuna sína, en hún er systir nr. 3 í röð fegurðardísa sem bera eftirnafnið Regins.

Fyrir utan kvensmekkinn deilum við miklum og djúpum áhuga á rauðvíni og góðum mat og höfum átt mjög margar eftirminnilegar stundir saman við matarborðið og ég er nokkuð viss um að við munum einhvern tíma opna veitingastað saman. Svona til að toppa þetta þá virðumst við einnig vera með mjög áþekkan fatasmekk og höfum oftar en ekki mætt í nánast sams konar fötum í matarboð og er okkur þá gjarnan ruglað saman … eða þannig.“



Sigurgísli Bjarnason
Sigurgísli Bjarnason, veitingamaður á Snaps og Nings

„Ég kynntist Andra Árnasyni þegar við stunduðum nám í Kaupmannahöfn. Andri er hógvær maður og hreykir sér ekki, oft og tíðum það hógvær að þrátt fyrir að við tölum saman daglega þá kemst maður oft að því eftir á að hann er búinn að vera að vinna að einhverju mjög merkilegu í þó nokkurn tíma.

Andri er fróðleiksfús og gæddur þeim eiginleika að ná að skoða bróðurpart internetsins daglega. Hann er hafsjór af fróðleik og getur maður alltaf leitað svara hjá honum, hvort sem það er vegna nýjustu trenda í viðskiptalífinu eða nafns á götu í erlendri stórborg. Það sem Andri gerir, gerir hann vel. Hann anar ekki út í neitt og ef hann hefur ekki fundið réttu lausnina þá bíður hann þar til hann finnur hana. Andri er klár, ósérhlífinn og duglegur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×