Innlent

Svipaður samningi grunnskólakennara

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Inga Rún Ólafsdóttir
Inga Rún Ólafsdóttir
Kennsla í tónlistarskólum hófst að nýju í gær eftir um fimm vikna verkfall tónlistarskólakennara. Samningarnir, sem undirritaðir voru klukkan hálfsex í gærmorgun eftir um 16 klukkustunda langan samningafund hjá Ríkissáttasemjara, eru sambærilegir við aðra samninga sem gerðir hafa verið við kennara, að því er Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, greinir frá.

Á heimasíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga var greint frá því fyrir helgi að tónlistarskólakennarar hefðu krafist hærri launa en leik- og grunnskólakennarar eða launahækkana sem næmu um 21 prósenti.

Slíkt væri óásættanlegt. Tónlistarskólakennarar lögðu til nýja nálgun í fyrradag, að því er segir á heimasíðu Kennarasambands Íslands.

Inga Rún vill ekki greina frá efnisatriðum nýja samningsins þar sem hann hafi ekki verið kynntur tónlistarskólakennurum.

Nýi kjarasamningurinn gildir frá 1. nóvember til loka október á næsta ári.

Þar sem atkvæðagreiðsla um leiðarvísi um vinnumat og breytingar á kjarasamningi grunnskólakennara verður í febrúar á næsta ári var ákveðið að gera kjarasamning við tónlistarskólakennara til skamms tíma.

„Við erum ekki að fara með aðra kennarasamninga lengra fyrr en það kemur í ljós hvort framhald verður á samningum við grunnskólakennara. Þetta hangir allt saman,“ segir Inga Rún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×