Innlent

Svipaður fjöldi flúið Ísland og á vesturfaraárunum

Heimir Már Pétursson skrifar
Flótti fólks frá landinu á undanförnum fimm árum svarar til þess að allir íbúar Akraness og Grýtubakkahrepps hafi yfirgefið heimili sín og flutt til útlanda. Hins vegar slagar fjöldi útlendinga sem flutt hefur til landsins umfram brottflutta á undanförnum fórum árum upp í íbúafjölda Ísafjarðarbæjar.

Á árunum 1879 til 1901 stóð yfir mikill landflótti Íslendinga til vesturheims en á þessu 23ja ára tímabili voru brottfluttir umfram aðflutta á Íslandi rétt um 9.500 manns, eða sem svaraði þá til um 12 prósenta þjóðarinnar, samkvæmt mannfjöldatölum Hagstofunnar.

Þúsundir Íslendinga hafa lagt á flótta frá landinu frá því efnhagslíf landsins hrundi í lok árs 2008. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni hafa 9.100 Íslendingar flutt til útlanda frá byrjun árs 2009 til þriðja ársfjórðungs í ár, umfram þá sem flutt hafa heim. Þetta svarar til þess að allir íbúar Akranesbæjar og Grýtubakkahrepps hafi flutt af landi brott á undanförnum fimm árum.

Flóttinn nær þó engan veginn sama hlutfalli og þegar Íslendingar flyktust vestur um haf, til þess hefðu rúmlega 38 þúsund Íslendingar þurft að flytja frá landinu umfram aðflutta, eða sem svarar til allra íbúa Kópvogs og Akraness til samans. En á undanförnum fimm árum hafa um 2,9 prósent Íslendinga flutt frá landinu umfram aðflutta, samanborið við 12 prósent á vesturfaraárunum eins og áður sagði.

Miklar sveifur hafa verið á fjölda útlendinga sem flytja til og frá landinu. Margir þeirra fluttu aftur til heimlandsins, sérstaklega fjölmennasti hópurinn Pólverjar, árið eftir hrun. En ef miðað er við fjölgun útlendinga sem flutt hafa til landsins frá árinu 2010 umfram þá sem flutt hafa frá landninu, slagar sá fjöldi hátt í íbúafjölda Ísafjarðar þar sem um 3.500 manns búa. Í lok síðasta árs bjuggu 22.700 erlendir ríkisborgarar á Íslandi og voru því rétt um 7 prósent íbúa landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×