Innlent

Svipað magn kviku undir jöklinum og kom úr Eyjafjallajökli

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Vilhelm
„Mat jarðvísindamanna er að nú þegar hafi kvika safnast saman sem er með svipuð að rúmmáli og sú sem kom upp úr Eyjafjallajökli á 39 dögum.“ Þetta sagði Kristín Jónsdóttir frá Veðurstofu Íslands í aukafréttatíma RÚV fyrir skömmu.

Hún sagði að skýr merki goss hefðu sést á jarðskjálftamælum upp úr hádegi í dag. Þar hefðu greinst merki þess að kvika hefði komist í vatn.

Upp úr því var ákvörðunin tekin að færa litakóðann úr appelsínugulu í rautt, sem þýðir að flugumferð yfir Bárðarbungu verði beint annað. Stóru svæði var lokað upprunalega, eða í um 300 kílómetra radíus frá Bárðarbungu.

Kristín sagði að gangur kvikunnar hefði færst til norðurs að undanförnu og með þessu framhaldi gæti hún leitað enn lengra til norðurs. Þá kæmi hún á svæði þar sem ekki sé neinn ís yfir. Þá myndi atburðarrásin breytast fljótt.

Hún sagði virknina hafa verið hviðukenda og að hún kæmi í gusum. Þá sagði Kristín að atburðarrásin hafi verið mjög hröð og að ekkert væri hægt að útiloka um framhaldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×