Innlent

Svínaræktandi segir ekki sjálfgefið að neytendur fái að sjá aðbúnað svína

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Eigandinn vildi ekki leyfa fréttastofu að kanna aðbúnað á svínabúinu sínu. Mynd úr skýrslu Matvælastofnunnar, sem ekki hefur gefið upp hvar myndirnar voru teknar.
Eigandinn vildi ekki leyfa fréttastofu að kanna aðbúnað á svínabúinu sínu. Mynd úr skýrslu Matvælastofnunnar, sem ekki hefur gefið upp hvar myndirnar voru teknar. Mynd/Matvælastofnun
Björgvin Jón Bjarnason, eigandi og framkvæmdastjóri svínabúsins að Hýrumel, viðurkennir að þrjár myndir sem birtar eru í skýrslu Matvælastofnunar um svínabú séu teknar á Hýrumel en þvertekur fyrir að þær myndir sýni þröngan aðbúnað eða bógsár. Hann segir myndirnar sem um ræði sýna góðan aðbúnað.

Í skýrslunni, sem RÚV greindi fyrst frá, kemur hins vegar fram að bógsár á gyltum hafi verið að finna á öllum búum sem könnuð voru og ekkert bú hafi uppfyllt skilyrði um stærð bása. 

Sjá einnig: Lestu skýrslu Matvælastofnunar

Björgvin Jón segir myndirnar ekki setja búið sitt í slæmt ljós. „Ég kannast við þrjár myndir og ég reyndar fékk það staðfest að ég ætti þrjár myndir og ef við metum búið út frá þeim þrem myndum þá ber það þessu búi afskaplega fagurt vitni,“ segir hann.

Skýrslan „vanburða plagg“

Björgvin telur að ekki sé hægt að túlka aðstæður allra svína á búum landsins út frá myndunum í skýrslunni.

„Fólk er að vinna þarna með einhverja tuttugu mynda seríu sem væntanlega á að sýna eitthvað sem annaðhvort fólk telur líta vel út eða illa. Þetta er náttúrulega afskaplega vanburða plagg til að lýsa einhverju ástandi,“ segir hann.

Leyfir ekki myndatöku

Björgvin vildi ekki leyfa fréttastofu að kanna aðbúnað á svínabúinu sínu segist þó ekki hafa neitt að fela. Búið sé undir ströngu eftirliti dýralækna Matvælastofnunar. 

Þér finnst að neytendur eigi ekki að fá þennan aðgang í gegnum fréttastofu? 

„Nei mér finnst það ekki sjálfgefið. Mér finnst það ekki.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×