Skoðun

Svikin loforð menntamálaráðherra

Guðríður Arnardóttir skrifar
Alvarleg rekstrarstaða framhaldsskólanna er augljós. Það er líka orðið ljóst að loforð um umbætur eru orðin tóm af hálfu menntamálaráðherra.

Skólameistarar í framhaldsskólunum hafa nú bent réttilega á að staðan sé orðin svo alvarleg að ekki sé til inneign fyrir helstu rekstrargjöldum og jafnvel ekki heldur launum starfsfólks en laun eru langstærsti rekstrarliður framhaldsskólanna.

Það er nefnilega þannig að svokölluð launastika ræður því hvernig fjármunum er úthlutað til framhaldsskólanna. Launastikan verður að endurspegla starfsmannahald hvers skóla sem getur verið nokkuð mismunandi. Meðalaldur kennara hækkar til dæmis launakostnað þar sem reyndari kennarar eru á hærri launum.

Hátt menntunarstig getur að sama skapi aukið launakostnað, stærð eða smæð skóla hefur áhrif sama skapi og verður launastikan að taka tillit til þess ef kerfið á að virka. Það gerir hún ekki eins og staðan er í dag. Launastika framhaldsskólanna er vægast sagt í algjöru rugli. Hún endurspeglar á engan hátt launakostnað og hefur í raun verið notuð til þess að þrengja að rekstri framhaldsskólanna. Framlög til skólanna hafa verið keyrð niður án þess að málefnaleg rök liggi þar til grundvallar sem réttlæta slíkt.

Í kjarasamningum framhaldsskólakennara frá árinu 2014 var fjárhagsstaða framhaldsskólanna til umfjöllunar enda staðan þá löngu orðin með öllu óverjandi. Þá eins og nú var víða ekki hægt að skrapa saman fyrir rekstrargjöldum eins og rafmagnsreikningum.

Við samningaborðið vorið 2014 var skilyrði af hálfu forystu framhaldsskólakennara, svo samningar tækjust, að endurskoða launastiku framhaldsskólanna enda töldum við ekki hægt að búa við það að fjárhagur framhaldsskólanna væri svo aðframkominn að ekki tækist að skrapa saman fyrir launum starfsfólks.

Þótt fjármálaráðherra sé í raun samningsaðili við Kennarasamband Ísland af hálfu ríkisins er það auðvitað fagráðherrann sem ber ábyrgð á rekstri framhaldsskólanna. Og til að liðka fyrir samningum þá skrifaði menntamálaráðherra undir eftirfarandi bókun:

Færa reiknilíkan framhaldsskóla í rétt horf með áherslu á að grunnbreytur endurspegli launakostnað sem réttast á hverjum tíma. Gert er ráð fyrir að endurskoðun reiknilíkansins verði lokið á fyrrihluta árs 2015.

Félag framhaldsskólakennara hefur ítrekað spurt frétta af þessari endurskoðun reiknilíkansins en fátt verið um svör innan úr menntamálaráðuneytinu. Nú er ár liðið síðan þessari endurskoðun átti að vera lokið og kjarasamningur framhaldsskólakennara rennur út 31. október næstkomandi.

Hvaða faglega metnað hefur menntamálaráðherra fyrir hönd framhaldsskólans í landinu? Er það skipulögð leikflétta að horfa bara í hina áttina þegar framhaldsskólarnir geta ekki rekið sig með tilheyrandi þjónustuskerðingu við nemendur? Hvernig eigum við að treysta orðum ráðherra sem svíkur loforð og gerða samninga?

Ég kalla eftir skýringum frá menntamálaráðherra um hvers vegna launastika framhaldsskólanna hefur ekki verið færð í rétt horf og hvers vegna rekstur skólanna er enn undir þolmörkum þrátt fyrir yfirlýsingar um að meginbreytingar á fyrirkomulagi náms til stúdentsprófs eigi að bæta rekstrarniðurstöðu skólanna. Það dugar ekki að kenna fjármálaráðuneytinu um – ráðherra menntamála ber ábyrgð á sínum málaflokki og að tryggja honum fjármuni.



Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 25. maí 2016




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×